Fangelsuð fyrir lítilsvirðingu við þjóðsönginn

Yang Kaili sést hér veifa höndum um leið og hún …
Yang Kaili sést hér veifa höndum um leið og hún syngur þjóðsöngin. Hún var með 44 milljónir fylgjenda á Huya áður en síðu hennar var lokað. Skjáskot/Weibo

Kínversk samfélagsmiðlastjarna hefur sætt fimm daga varðhaldi fyrir að sýna þjóðsöng landsins „lítilsvirðingu“. Yang Kaili, tvítug samfélagsmiðlastjarna með tugi milljóna fylgjenda, birti streymi af sér í beinni að syngja þjóðsönginn og veifa höndum á sama tíma.

Samfélagsmiðillinn Huya, sem upptökunni var streymt um, hafði áður fjarlægt myndbandið og lokað síðu Yang. Hún hefur í kjölfarið beðist opinberlega afsökunar, að því er BBC greinir frá.

Í yfirlýsingu sem lögregluyfirvöld í Sjanghæ sendu frá sér um helgina er Yang, sem einnig er þekkt undir nafninu Li Ge, sögð hafa brotið lög landsins um þjóðsönginn.

„Þjóðsöngurinn er tákn landsins og allir borgarar eiga að virða hann og verja virðingu hans,“ sagði í yfirlýsingunni. Streymisveitur séu ekki ofar lögum og laga- og siðferðisstaðlar gildi þar ekki síður en annars staðar.

Lögin um þjóðsönginn tóku gildi í fyrra, en þeir sem syngja þjóðsönginn með „brengluðum hætti eða af óvirðingu“ eiga yfir höfði sér allt að 15 ára fangelsisvist.

Þúsundir Kínverja streyma myndefni af sér í beinni við að borða, syngja eða einfaldlega tjá sig fyrir myndavélarnar fólki til skemmtunar og sér til tekjuöflunar.

Skammast sín fyrir heimskuleg mistök

Milljónir horfa á slíkar útsendingar og geta áhorfendur sent uppáhaldssamfélagsmiðlastjörnunum sínum sýndargjafir sem þær geta svo breytt í fé. BBC segir markaðinn fyrir streymisveitur í Kína vera metinn á um fimm milljarða dollara.

Yang birti 7. október stutt myndskeið af sér að syngja þjóðsönginn í beinni. Þar sést hún syngja fyrstu línu þjóðsöngsins, brosa um leið og veifa höndum eins og umferðarstjórnandi.

Kínverskir fjölmiðlar segja Yang hafa verið um með um 44 milljónir fylgjenda á Huya áður en síðu hennar var lokað. Sagði fyrirtækið í yfirlýsingu sinni að gjörðir hennar hefði brotið gegn lögum um þjóðsönginn og því hefði síðu hennar verið lokað. „Við erum skuldbundin því að dreifa jákvæðri orku og [...] verja virðingu þjóðsöngsins,“ sagði í yfirlýsingu Huya.

Skiptar skoðanir hafa verið hjá notendum kínverskra samfélagsmiðla, sem hafa ýmist lofað eða lastað þá ákvörðun að fangelsa Yang.

Yang hefur nú beðist afsökunar á Weibo, sem er kínverska útgáfan af Twitter. Kvaðst hún „skammast“ sín fyrir að gera svo „heimskuleg mistök“.

„Ég biðst innilega afsökunar á þeirri staðreynd að ég söng þjóðsönginn ekki af alvöru. Þjóðsöngurinn er heilagur og hegðan mín særði tilfinningar allra,“ sagði hún og kvaðst munu hætta að senda út í beinni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert