Í meiðyrðamál við konu vegna #metoo

Akbar segir ásakanirnar settar fram nú til að koma pólitísku …
Akbar segir ásakanirnar settar fram nú til að koma pólitísku höggi á hann. AFP

Indverski ráðherrann MJ Akbar hefur höfðað meiðyrðamál gegn blaðakonu sem nafngreindi hann í umfjöllun um #metoo-byltinguna í landinu. Ásakanir Priya Ramani gegn Akbar gáfu fleiri konum kjark til að stíga fram og segja frá meintu kynferðisofbeldi sem hann á að hafa beitt þær. BBC greinir frá.

Akbar hefur einnig hótað að fara í mál við þær konur sem síðar stigu fram. Þá hefur hann sagt að hann muni ekki stíga til hliðar og segja af sér sem aðstoðarutanríkisráðherra.

Ráðherrann er þekktasta nafnið sem komið hefur upp í #metoo-byltingunni á Indlandi, en hann sneri aftur til landsins í dag eftir hafa verið í opinberri heimsókn erlendis. Hann segir ásakanirnar ósannar og ekki byggðar á neinum staðreyndum.

Ramani hefur ekki tjáð sig eftir að Akbar neitaði ásökunum, en hún nefndi hann á nafn í síðustu viku þegar hún endurbirti grein á Twitter í síðustu viku, sem áður hafði birst í indverska Vouge árið 2017. Bar hún yfirskriftina „To the Harvey Weinsteins of the World“ eða til allra í heiminum sem eru eins og Harvey Weinstein, og vísar hún þar til kvikmyndaframleiðandans sem tugir kvenna hafa ásakað um kynferðislegt ofbeldi, þar á meðal nauðganir. Þar lýsti hún upplifun sinni af því þegar hún var í fyrsta skipti áreitt kynferðislega í vinnunni. Ramani nafngreindi gerandann ekki í upphaflegu greininni en í færslunni á Twitter sagðist hún hafa verið að tala um Akbar, en hann var eitt sinn ritstjóri.

Síðan þá hafa nokkrar konur stigið fram og lýst svipaðri reynslu af ráðherranum, bæði undir nafni og nafnlaust. Þær hafa fengið mikinn stuðning og meðbyr frá öðrum konum og blaðamönnum.

Akbar birti sjálfur yfirlýsingu á Twitter í gær þar sem hann sagði tilgang þessara ásakana að koma höggi á hann sem stjórnmálamann, í ljósi þess að kosningar fara fram í Indlandi á næsta ári. „Af hverju koma þessar ásakanir fram núna nokkrum mánuðum fyrir kosningar? Er einhver sérstakur tilgangur? Þið getið sjálft dæmt um það,“ skrifaði hann meðal annars.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert