Paul Allen látinn

Paul Allen árið 2008.
Paul Allen árið 2008. AFP

Paul Allen, annar af stofnendum tölvurisans Microsoft, er látinn eftir að hafa átt við veikindi að stríða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vulcan Inc. sem var send út fyrir hönd fjölskyldu hans.

Allen, sem var 65 ára gamall, lést í borginni Seattle eftir baráttu við krabbamein, að sögn CNBC

„Bróðir minn var stórmerkilegur einstaklingur á öllum sviðum. Á meðan flestir þekktu Paul Allen vegna tæknimála og starfa hans í þágu góðgerðarmála þá var hann í okkar huga fyrst og fremst bróðir og frændi sem við elskuðum mikið,“ sagði systir hans Jody í yfirlýsingu.

„Fjölskylda Pauls og vinir nutu þeirrar blessunar að hafa kynnst húmor hans, hlýju, örlæti og hvernig hann lét sig málin varða. Á þessum tíma þegar við erum að upplifa mikinn missi og mikla sorg, eins og svo margir aðrir, erum við að eilífu þakklát fyrir umhyggjuna sem hann sýndi á hverjum degi og hvernig hann lét sig málin varða.“

Paul Allen árið 2004.
Paul Allen árið 2004. AFP

Fyrr í þessu mánuði greindi Allen frá því að hann hefði gengist undir krabbameinsmeðferð vegna sama krabbameins og hann sigraðist á fyrir níu árum.

Allen var einn ríkasti maður heims og var í 21. sæti á lista Forbes yfir ríkustu menn heimsins þegar hann lést.

Hann var ásamt 185 öðrum á lista yfir þá sem hafa heitið því að gefa meirihluta auðæfa sinna til góðgerðarmála.

Bill Gates (í miðjunni) og Paul Allen (til vinstri) horfa …
Bill Gates (í miðjunni) og Paul Allen (til vinstri) horfa á NBA-leik árið 2000. AFP

Glæsisnekkja Allens, Octopus, hefur verið tíður gestur hér á landi undanfarin ár og muna margir eftir henni við Reykjavíkurhöfn. 




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert