Stunginn til bana í hádeginu

mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Lögreglan í Ósló er ráðþrota í leit sinni að hugsanlegum drápsmanni eftir að maður fannst látinn af stungusárum laust eftir klukkan 14 í dag, 12 að íslenskum tíma, í Majorstuen-hverfinu í Ósló sem fram að þessu hefur ekki verið þekkt fyrir ofbeldi og dráp.

„Við biðjum fólk að hafa samband við okkur sjái það grunsamlegan eða blóðugan einstakling á svæðinu,“ sagði Hanne Nordve, vettvangsstjóri lögreglunnar, við norska ríkisútvarpið NRK í dag. Grundvöllur þessarar sérstöku eftirlýsingar er framburður vitnis sem hringdi í lögregluna laust eftir klukkan 12 að norskum tíma, 10 á Íslandi, eftir að hafa séð mann „hvítan sem ná í framan og ataðan blóði“ koma út úr fjölbýlishúsi í Majorstuen og setjast á blómsturker, ekki langt frá Majorstua-barnaskólanum.

Lögregla setti mikinn viðbúnað í gang þótt reyndar liðu hátt í tveir tímar þar til skjöldum brynjuð sérsveit með hríðskotabyssur réðst til inngöngu í húsið en greip þar í tómt. Lík fórnarlambsins var hins vegar á staðnum og hefur lögregla varist allra frétta af aðkomunni þar sem ekki hefur enn verið haft samband við aðstandendur hins látna.

Nú, þegar langt er liðið á kvöld, hefur tæknideild lögreglu lokið störfum á vettvangi en eitt vantar þó enn sem komið er, manninn sem sást náfölur og blóðugur tylla sér á blómsturker utan við húsið.

Í viðtali við dagblaðið VG segir sami vettvangsstjóri, Hanne Nordve, að lögreglan hafi ekki enn hugmynd um hvað gerst hafi, hún geti ekki einu sinni slegið því föstu að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað, það eina sem sé ljóst er að maðurinn hafi látist af stungusárum. Virðist þar opnað fyrir þann möguleika að maðurinn hafi veitt sér áverkana sjálfur en um það steinþegir lögreglan þó.

Nemendum og kennurum við Marienlyst-barnaskólann, sem er tæpa tvo kílómetra frá vettvangi, varð ekki um sel þegar fréttir af atburðinum tóku að sveima um vefmiðla í dag og spurðu lögreglu hvort þeim væri óhætt í skólanum. Lögregla taldi svo vera en engu að síður beindi hún þeim tilmælum til foreldra skólabarna að þeir sæktu afkvæmi sín í skólann í dag frekar en að láta þau ganga ein og óstudd heim.

Aðrar en þegar ívitnaðar fréttir norskra fjölmiðla af málinu:

Frá Aftenposten

Frá Dagbladet

Frá TV2

Uppfært klukkan 21:40 (19:40 að íslenskum tíma):

Blaðamannafundi lögreglunnar í Ósló lauk rétt í þessu og hefur því verið slegið föstu að maðurinn hafi verið myrtur. Hann var á þrítugsaldri og hafði ekki komið við sögu lögreglu áður. Enginn er grunaður í málinu enn sem komið er.

Frétt NRK af blaðamannafundinum

mbl.is
FJÖLNOTAKERRUR _ STURTUKERRUR
Fjölnotakerrur, auðvelt er að koma bílum og vélum uppá, 4 til 6 metra langar. St...
Byggingastjórn - Húsasmíðameistari
Löggiltur byggingarstjóri, húsasmíðameistari og leigumiðlari Tek að mér: - ...
Til sölu 16" álfelgur og snjódekk
Felgurnar eru original Mitsubishi 16", gatadeiling 108x5. Dekkin eru Firestone ...
KRISTALS LJÓSAKRÓNUR ÚTSALA er að byrja
Glæsilegar kristalsljósakrónur fyrir falleg heimili. ÚTSALA Handskornar kristal...