Áhöfnin svaf á gólfi flugvallarins

Stéttarfélag áhafnarinnar segir flugliðana hafa eytt nóttinni á gólfi flugvallarins ...
Stéttarfélag áhafnarinnar segir flugliðana hafa eytt nóttinni á gólfi flugvallarins án þess að fá vott eða þurrt. Ljósmynd/SNPVAC

Mynd af flugáhöfn Ryanair-flugfélagsins þar sem hún liggur á gólfi spænsks flugvallar hefur fengið mikla deilingu á samfélagsmiðlum. 24 manna portúgölsk flugáhöfn Ryanair var strandaglópur á flugvelli í Malaga eftir að vélinni sem átti að flytja þau til Porto í Portúgal var beint annað. Segir stéttarfélag þeirra SNPVAC að flugliðarnir hafi eytt nóttinni á gólfi flugvallarins og án þess að fá vott né þurrt. Myndin sýni aðstæður flugliðanna sem hafi ekki átt annars kost en að dvelja þar.

Forsvarsmenn Ryanair fullyrða hins vegar að myndin sé sviðsett og að „enginn úr áhöfninni hafi sofið á gólfinu“.

„Vegna óveðurs í Porto var fjölda flugvéla beint til Malaga,“ sagði í yfirlýsingu frá Ryanair. „Þar sem þetta var almennur frídagur á Spáni voru hótel fullbókuð.“

Áhöfnin hafi því dvalið skamma stund í áhafnarherberginu áður en hún var flutt yfir í VIP-setustofu og svo flutt til Porto næsta dag. Flugfélagið segir enn fremur að engir flugliðanna sem gistu í Malaga hafi unnið í flugvélunum sem í kjölfarið fóru frá Porto.

Stéttarfélagið er ósammála fullyrðingum Ryanair og segir áhöfnina hafa verið látna dvelja í herberginu frá hálftvö um nóttina og til sex um morguninn án lágmarkshvíldaraðstöðu. Þá hafi áhöfnin ekki heldur haft aðgang að mat, drykk eða nægum fjölda sæta, þar sem eingöngu átta stólar voru í herberginu.

„[Flugliðarnir] áttu einskis annars kost eins og myndin sýnir, en að reyna að hvíla sig á gólfi herbergisins,“ segir í fullyrðingu SNPVAC. Áhöfnin hafi vissulega verið flutt yfir í VIP setustofuna klukkan sex um morguninn, en „þau höfðu enn engan aðgang að mat eða drykk.“ Slíkt brjóti í bága við lagalega ábyrgð flugfélagsins að finna gistingu fyrir starfsfólk svo það geti hvílst.

BBC segir Ryanair ekki hafa tjáð sig um þá fullyrðingu stéttarfélagsins að starfsfólk hafi verið án matar og drykkjar.

mbl.is
- Studio íbúð til leigu.
Til leigu í Biskupstungum fyrir 1-2, bað/sturta og eldhús, gasgrill. leigist ...
NP þjónusta
NP Þjónusta Óska eftir að annast bókhaldsvinnu og fleira þess háttar. Upplýsinga...
EIGUM ALLSKONAR STIGA Á LAGER
Sjá fjölmargar gerðir á: http://www.sogem-sa.com/stairs Sími 615 1750 Sjá einni...
Cherokee hjólbarðar óskast
Óska eftir hjólbörðum fyrir Grand Cherokee stærð 225/75/16R eða 236/70/16R Uppl...