Falsaði vinningsmiðann í lottóinu

Putman framvísaði fölsuðum lottómiða með stóra vinningnum og fékk greiddar …
Putman framvísaði fölsuðum lottómiða með stóra vinningnum og fékk greiddar rúmar 2,5 milljónir punda. AFP

Breskur karlmaður kom í dag fyrir dómara eftir að hafa verið ákærður fyrir að falsa lottómiða og leggja fram kröfu á rúmlega 2,5 milljóna punda vinning í breska lottóinu.

BBC segir manninn, Edward Putman, hafa framvísað fölsuðum lottómiða með stóra vinningnum árið 2009. Hann fékk greiddar rúmar 2,5 milljónir punda (um 385 milljónir króna) fyrir vinning sem ekki hafði verið vitjað um nokkurra mánaða skeið.

Rannsókn var ekki hafin á málinu fyrr en 2015 þegar vísbendingar komu upp úr kafinu um að krafa Putmans hefði ekki verið lögmæt. Hann var í kjölfarið ákærður í málinu, en hann hefur neitað því að hafa lagt fram falsaða kröfu á vinninginn.

Hann var látinn laus gegn greiðslu tryggingar fram að því er dómsmálið gegn honum hefst í næsta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert