Húsleit líka gerð í sendiráðsbústaðnum

Tæknideild tyrknesku lögreglunnar að störfum inni á ræðismannsskrifstofunni.
Tæknideild tyrknesku lögreglunnar að störfum inni á ræðismannsskrifstofunni. AFP

Leitin sem tyrkneska rannsóknarlögreglan framkvæmdi í gær á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu verður víkkuð út í dag og mun nú einnig taka til ræðismannsbústaðarins og nokkurra bifreiða. Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands.

Hóp­ur tyrk­neskra rann­sókn­ar­lög­reglu­manna og full­trú­ar sak­sókn­ara leituðu á ræðismanns­skrif­stofu Sádi-Ar­ab­íu í Ist­an­b­úl í gær­kvöldi og nótt. Alls voru þeir átta klukku­stund­ir á skrif­stof­unni og tóku með sér sýni, svo sem úr mold úr garði bygg­ing­ar­inn­ar.

Leit­in teng­ist hvarfi blaðamanns­ins Jamal Khashoggi en ekk­ert hef­ur spurst til hans síðan 2. októ­ber þegar hann kom á ræðismanns­skrif­stof­una til þess að sækja gögn í tengsl­um við fyr­ir­hugað brúðkaup hans og unnust­unn­ar.

Málað yfir hluta ræðismannsskrifstofunnar

Þá greindi Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti frá því í dag að svo virtist sem búið væri að mála yfir hluta ræðismannsskrifstofunnar. Erdogan sagði lögreglu þá einnig vera að rannsaka eiturefni sem fundust á skrifstofunni.

Öryggisverðir við ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl.
Öryggisverðir við ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl. AFP

Reuters hefur áður haft eftir tyrkneskum heimildamönnum að þarlend yfirvöld hafi undir höndum hljóðupptöku af því er Khashoggi var myrtur á ræðismannsskrifstofunni og að þau hafi deilt þeim sönnunargögnum með stjórnvöldum í Sádi-Arabíu og Bandaríkjunum. Sádi-arabísk stjórnvöld hafa til þessa hafnað því að eiga aðild að hvarfi Khashoggis, en vestrænir fjölmiðlar hafa þó í dag sagt Sáda nú hugleiða að játa að Khashoggi hafi látist við yfirheyrslu sem fór úrskeiðis.

 „Ég vonast til þess að við getum komist að niðurstöðu sem gefi okkur ásættanlega lausn sem fyrst,“ sagði Erdogan á fundi með fréttamönnum í Ankara. „Rannsóknin snýr nú að mörgum þáttum, m.a. eiturefnum og hlutum sem hafa verið fjarlægðir eða sem búið er að mála yfir,“ bætti hann við.

Ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna, Mike Pom­peo, kom til höfuðborg­ar Sádi-Ar­ab­íu, Ríad, í morg­un en þar mun hann ræða við Salm­an kon­ung um hvarf blaðamanns­ins. Mjög vel var tekið á móti Pom­peo af starfs­bróður hans, Adel al-Ju­beir, og sendi­herra Sádi-Ar­ab­íu í Washingt­on, Khalid bin Salm­an, á flug­vell­in­um í morg­un að sögn blaðamanns AFP-frétta­stof­unn­ar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert