17 létust í skotárás á Krímskaga

Sérsveit rússnesku lögreglunnar var kölluð út eftir að tilkynning um …
Sérsveit rússnesku lögreglunnar var kölluð út eftir að tilkynning um sprenginguna barst. AFP

Að minnsta kosti 17 létust og fjörutíu særðust í sprengingu í tækniskóla í borginni Kerch á Krímskaga í morgun. Flestir hinna látnu voru nemendur við skólann á unglingsaldri.

BBC greinir frá því að upphaflega var talið að um gassprengingu hafi verið að ræða en AFP-fréttastofan hefur heimildir fyrir því að nemandi við skólann standi á bak við árásina. Hann var vopnaður byssu og skaut á nemendur og starfsfólk skólans áður en hann tók sitt eigið líf.

„Þetta er gríðarlegur harmleikur, 17 eru látnir og yfir 40 særðir, eftir því sem við best vitum á þessari stundu,“ sagði Sergei Aksynov, leiðtogi Krímskaga, í samtali við Rossiya 24 channel.

Um 850 nemendur stunda nám við skólann. Olga Grebennikova, skólastjóri tækniskólans, segir í samtali við rússneska fjölmiðla að sést hefði til hóps manna koma inn á skólalóðina skömmu fyrir árásina. Þá hafi hún sé lík liggja á víð og dreif um skólann. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 

Að minnsta kosti 40 særðust í árásinni.
Að minnsta kosti 40 særðust í árásinni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert