Böndin sögð berast að krónprinsinum

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heilsar hér Mohammed bin Salman, krónprinsi …
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heilsar hér Mohammed bin Salman, krónprinsi Sádi-Arabíu, í opinberri heimsókn sinni til Ríad í gær. A.m.k. fjórir þeirra sem taldir eru tengjast hvarfi Khashoggis hafa tengsl við prinsinn. AFP

Einn 15 menninganna, sem taldir eru tengjast hvarfi sádi-arabíska blaðamannsins Jamal Khashoggi, hefur reglulega sést  í fylgd Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, þrír til viðbótar tengjast öryggisteymi prinsins og sá fimmti er hátt settur réttarmeinafræðingur. New York Times fjallar í dag um mennina fimm og segir böndin sem berast að prinsinum verða æ sterkari.

Ekk­ert hef­ur spurst til Khashoggis síðan 2. októ­ber þegar hann kom á ræðismanns­skrif­stof­u Sádi-Arabíu í Istanbúl í Tyrklandi til þess að sækja gögn í tengsl­um við fyr­ir­hugað brúðkaup hans og unn­ust­unn­ar. Tyrknesk stjórnvöld fullyrða að Khashoggi hafi verið myrtur á skrifstofunni, en því hafa stjórnvöld í Sádi-Arabíu neitað til þessa.

New York Times segir einn 15 menninganna sem staddir voru í sendiráðinu er Khashoggi var þar hafa sést ítrekað í fylgd krónprinsins. Hann sjáist á myndum með prinsinum í París, Madrid, Houston, Boston, auk þess að standa vörð í heimsókn hans í höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna.

Þrír til viðbótar tengjast, samkvæmt heimildum blaðsins, öryggisteymi prinsins. Sá fimmti, meinatæknirinn, er hins vegar hátt settur í sádi-arabíska innanríkisráðuneytinu. 

Ímynd prinsins svert

Séu fullyrðingar tyrkneska yfirvalda réttar um að mennirnir hafi verið staddir á skrifstofu ræðismannsins í Istanbúl er Khashoggi hvarf segir New York Times það geta bent til beinna tengsla krónprinsins við hvarf Khashoggis. Það grafi undan öllum skýringum um að hann hafi látist í óheimilli aðgerð sem ekki hafi verið samþykkt af prinsinum. Segir blaðið tengsl fjórmenninganna við Mohammed prins gera Hvíta húsinu og Bandaríkjaþingi erfiðara um vik að samþykkja slíkar skýringar.

New York Times segist hafa staðfest að tyrknesk yfirvöld hafi borið kennsl á  a.m.k. níu af mönnunum 15 sem starfsmenn sádi-arabísku leyniþjónustunnar, hersins eða ráðuneyta.

Einn mannanna, Maher Abdulaziz Mutreb, hafði stöðu diplómata og starfaði við sendiráð Sádi-Arabíu í London 2007 og ferðaðist þá víða með krónprinsinum, mögulega sem lífvörður hans.

Samsett mynd úr eftirilitsmyndavélum af mönnunum 15 sem tyrkneska lögreglan …
Samsett mynd úr eftirilitsmyndavélum af mönnunum 15 sem tyrkneska lögreglan telur tengjast hvarfi Khashoggis. New York Times segir a.m.k. 9 þeirra tengjast sádi-arabísku leyniþjónustunni. AFP

New York Times segir það munu hafa mikil áhrif á stöðu prinsins gagnvart vesturveldum og sádi-arabísku konungsfjölskyldunni að hve miklu leyti sé hægt að tengja hann hvarfi eða dauða Khashoggis.

Sjálfur hefur hann gefið sig út fyrir að vera umbótamaður sem hyggi á breytingar á efnahag og menningu ríkisins. Hefur hann nýtt sér þá ímynd til að hafa áhrif á stefnu Bandaríkjastjórnar í Mið-Austurlöndum og til að höfða til vestrænna fjárfesta og fá þátttöku í að auka fjölbreytileika í atvinnulífi landsins.

Fréttir af meintri aftöku og mögulegri sundurlimun á líki Khashoggi hafa hins vegar þegar svert ímynd Mohammed prins í mun meira mæli en fyrri mistök prinsins hafa gert. Rán á forsætisráðherra Líbanon eða þátttaka í stríðinu í Jemen hafi ekki haft sambærileg áhrif á ímynd hans.

Jamal Khashoggi. Ekkert hefur til hans spurst síðan 2. október.
Jamal Khashoggi. Ekkert hefur til hans spurst síðan 2. október. AFP

Lagarde hættir við þáttöku í Ríad

Krónprinsinn og faðir hans, Salman Sádakonungur, hafa neitað því að hafa nokkra vitneskju um hvað hafi orðið af Khashoggi og hafa ítrekað sagt hann hafa yfirgefið ræðismannsskrifstofuna.

Undanfarna daga hafa stjórnendur margra  stórfyrirtækja, m.a. bandarískra, hætt við þátttöku í fjárfestingarráðstefnu sem fram á að fara í Ríad síðar í mánuðinum. Nú síðast í dag var tilkynnt að Christine Lagarde, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hafi hætt við þátttöku. Þá hafa þingmenn Bandaríkjaþings hvatt til þess Sádi-Arabía verði látin sæta refsiaðgerðum.

Bandaríkin, Sádi-Arabía og Tyrkland eru hins vegar sögð leita lausnar á vandanum sem leyfi Sádum að halda andlitinu. Þannig greindu fjölmiðlar frá því í gær að búist væri við að Sádi-Arabía myndi viðurkenna að Khashoggi hefði látist við yfirheyrslu sem farið hefði úrskeiðis og um leyniþjónustumönnunum yrði þar með kennt um.

Ekkert bólar hins vegar á slíkri viðurkenningu enn þá og segir New York Times stöðu hinna grunuðu innan sádi-arabíska stjórnkerfisins og tengsl þeirra við krónprinsinn gera slíkar skýringar ólíklegar. Þá bendi vera réttarmeinafræðingsins til þess að það morð hafi verið hluti áætlunarinnar.

Húsleit var gerð í bústað ræðismanns Sádi-Arabíu í Istanbúl í …
Húsleit var gerð í bústað ræðismanns Sádi-Arabíu í Istanbúl í gær. Ræðismaðurinn er hins vegar floginn heim til Sádi-Arabíu. AFP

Þegiðu, ef þú vilt lifa!

Tyrkir segjast hafa sannanir fyrir því að 15 sádi-arabískir leyniþjónustumenn hafi flogið til Istanbúl 2. október, þar hafi þeir myrt Khashoggi og sundurlimað lík hans með beinsög sem þeir tóku með sér í því skyni og síðan hafi þeir flogið á brott aftur sama dag. Flugskrár sýna að tvær einkaþotur í eigu sádi-arabísks fyrirtækis með náin tengsl við krónprinsinn og sádi-arabíska innanríkisráðuneytið hafi flogið frá Istanbúl daginn sem Khashoggi hvarf.

Tyrknesk yfirvöld segi enn fremur að Khashoggi hafi verið myrtur innan við tveimur tímum eftir að hann kom á skrifstofuna sem þýði að ekki hafi gefist langur tími fyrir yfirheyrsluna að fara úr böndunum.

Tyrkneska dagblaðið Yeni Safak, sem er hliðhollt tyrkneskum stjórnvöldum, hefur að sögn AFP-fréttastofunnar greint frá því að hafa hlustað á hljóðupptökur af Khashoggi sæta pyntingum, þar sem fingur hafi verið skornir af honum og höfuðið því næst hoggið af honum. Heyra megi sádi-arabíska ræðismanninn Mohammed al-Otaibi segja meðan á pyntingunum stendur: „Gerið þetta úti. Þið eigið eftir að koma mér í vandræði.“

Því svari óþekktur einstaklingur til: „Ef þú vilt lifa þegar þú snýrð aftur til Sádi-Arabíu skaltu þegja!“

Al-Otaibi yfirgaf ræðismannsskrifstofuna í gær og hélt til Sádi-Arabíu. Hann fullyrðir að það hafi hann gert að eigin ósk, en tyrkneska lögreglan hefur framkvæmt húsleit á ræðismannsskrifstofunni, í ræðismannsbústaðnum og bifreiðum tengdum skrifstofunni.

Réttarmeinafræðingur að störfum á skrifstofu sádi-arabíska ræðismannsins í Istanbúl.
Réttarmeinafræðingur að störfum á skrifstofu sádi-arabíska ræðismannsins í Istanbúl. AFP

Hækkaður í tign fyrir að verja höll prinsins í Jeddah

New York Times segist hafa safnað viðbótarupplýsingum um hina grunuðu með því að nýta andlitskennslabúnað, opinberar skrár, gagnagrunn yfir sádi-arabísk farsímanúmer, sádi-arabískar fréttir, prófíla á samfélagsmiðlum og í sumum tilfellum frásagnir vitna í Sádi-Arabíu og þeim löndum sem prinsinn hefur heimsótt.

Fyrrverandi diplómatinn Mutreb sést á ljósmyndum stíga út úr flugvélum með krónprinsinum í nýlegum ferðum hans til Madrid og Parísar. Þá var hann einnig myndaður í heimsóknum prinsins til Houston, Boston og höfuðstöðva Sameinuðu þjóðanna, þar sem hann sést skanna mannfjöldann.

Frakki sem unnið hefur fyrir sádi-arabísku konungsfjölskylduna hefur þá borið kennsl á Abdulaziz Mohammed al-Hawsawi, einn 15 menninganna, sem liðsmann í öryggisteyminu sem ferðist með krónprinsinum.

Sádi-arabísk fréttastofa segir þá mann sem beri sama nafn og einn hinna grunuðu, Thaar Ghaleb al-Harbi, hafa á síðasta ári verið hækkaðan í tign og gerður að liðsforingja í konunglega herliðinu fyrir sýnt hugrekki við að verja höll prinsins í Jeddah.

Sá fjórði hefur ferðast með vegabréfi í nafni annars liðsmanns konunglega varðarins, Muhammed Saad Alzahrani. Sé nafni hans slegið inn í appið Menom3ay, sem er vinsælt app í Sádi-Arabíu, kemur fram að hann sé liðsmaður konunglega varðarins. Í myndbandi frá 2017 má sjá vörð með þetta nafn standa við hlið krónprinsins.

Unnusta Khashoggi, Hadice, beið hans í hátt í hálfan sólarhring …
Unnusta Khashoggi, Hadice, beið hans í hátt í hálfan sólarhring áður en hún hafði samband við yfirvöld. AFP

Birti greinar um sundurlimun og hreyfanlega líkskoðun

New York Times segir að þó að liðsmenn konunglega varðliðsins eða aðstoðarmenn ferðist með prinsinum heyri þeir ekki endilega beint undir hann og þeir geti líka sinnt öðrum störfum. Það sé því vissulega mögulegt að þeir hafi verið fengnir af hátt settum einstaklingi innan leyniþjónustunnar til að taka þátt í aðgerð til að fanga og yfirheyra Khashoggi. Viðvera réttarmeinafræðingsins, Salah al-Tubaigy, bendi hins vegar til þess að það hafi átt að myrða hann.

Tubaigy, sem er virkur á nokkrum samfélagsmiðlum, er yfirmaður sádi-arabíska réttarmeinaráðsins og er hátt settur í virkasta læknaskóla ríkisins sem og í innanríkisráðuneytinu. Hann var við nám í Glasgow háskóla 2015 og dvaldi þrjá mánuði í Ástralíu við rannsóknir í Victorian Institute of Forensic Medicine-réttarmeinafræðastofnuninni. Hann hefur fengið birtar greinar um sundurlimun og hreyfanlega líkskoðun.

New York Times segir ekkert í opinberum skrám benda til tengsla hans við hirðina, en ólíklegt verði að teljast að maður í hans stöðu taki þátt í óleyfilegri aðgerð sem einhver honum lægra settur hafi skipulagt.

Á þessu myndbandi úr öryggismyndavél sést blaðamaðurinn Jamal Khashoggi koma …
Á þessu myndbandi úr öryggismyndavél sést blaðamaðurinn Jamal Khashoggi koma til ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl. Þaðan sneri hann aldrei. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert