„En enginn kemur“

Allan daginn flytja smáir bátar fólk yfir ána Efrat til sýrlensku borgarinnar Raqqa þar sem brýr, íbúðarhús og skólabyggingar bera áhlaupinu á borgina enn glögg merki. Sýrlensku lýðræðissveitirnar (SDF) með aðstoð Bandaríkjamanna náðu völdum yfir borginni úr höndum vígamanna Ríkis íslams fyrir ári og hröktu þá á flótta. Innviðir hennar eru enn í molum í bókstaflegri merkingu þar sem vegir og brýr eru rústir einar.

Til að komast til borgarinnar þarf hinn 33 ára gamli Abu Yasan ásamt fjölskyldu sinni að fara um borð í lítinn bát á suðurbakka Efrat sem rennur í útjaðri Raqqa.

Fólkið tekur mótorhjólin sín með um borð í smáa bátana og svo er haldið að stað yfir ána. „Þetta er erfitt, börnin eru alltaf hrædd um að drukkna,“ segir Abu Yazan. „Við viljum að gert verði við brúna því það er öruggara að fara um hana heldur en á ánni.“

Gríðarleg eyðilegging blasir enn við í Raqqa.
Gríðarleg eyðilegging blasir enn við í Raqqa. AFP

Leifar Gömlu brúarinnar, sem var velþekkt kennileiti Raqqa, standa skammt hjá: Tveir stórir stólpar ofan á mannvirki sem er hrunið. Brúin varð fyrir loftárás er herir bandamanna hófu áhlaup á borgina. Var það með vilja gert til að koma í veg fyrir að vígamennirnir gætu flúið um hana.

Átökunum lauk 17. október á síðasta ári er valdataumarnir komust loks aftur í hendur stjórnarhersins sem síðar afhenti þá borgarstjórn. Enn eru sextíu brýr ónýtar í og við borgina að sögn borgarráðsmannsins Ahmad al-Khodr. „Bandamenn hafa boðið okkur átta járnbrýr,“ segir hann, svo að koma megi á samgöngum milli dreifbýlisins og borgarinnar.

Mannréttindasamtökin Amnesty International telja að um 80% bygginga í Raqqa hafi eyðilagst eða skemmst í átökunum, m.a. skólar og sjúkrahús.

Sýrlendingar um borð í litlum bát á leið til Raqqa. …
Sýrlendingar um borð í litlum bát á leið til Raqqa. Brúin er skemmd og því neyðast allir til að fara sjóleiðina. AFP

Stærsta sjúkrahúsið í borginni var síðasta vígi vígamannanna. Nú er þar aðeins að finna rústir. Um 30.000 íbúðarhús eyðilögðust og um 25 þúsund skemmdust illa að sögn Amnesty.

Sonur Ismail al-Muidi var meðal þeirra sem féllu í átökunum er þau stóðu sem hæst. „Ég gróf honum gröf með berum höndum,“ segir hann. Nú er hann heimilislaus en hefur fengið skjól hjá systur sinni. „Bandamenn eyðilögðu allt húsið og allt sem við áttum fór með því,“ segir hann.

Allt hefur þetta valdið honum mikilli streitu. „Hvernig get ég endurbyggt þetta hús? Við þurfum hjálp við að fjarlægja rústirnar. En enginn hefur hjálpað okkur.“

Frá því vígamenn Ríkis íslams voru hraktir frá borginni hafa um 150 þúsund manns snúið þangað á nýjan leik að því er fram kemur í samantekt Sameinuðu þjóðanna.

Í bakgrunni sést hversu miklar skemmdir voru unnar á brúnni …
Í bakgrunni sést hversu miklar skemmdir voru unnar á brúnni yfir Efrat. AFP

En það eru ekki aðeins rústirnar sem hamla uppbyggingunni því vígamennirnir skildu eftir sig hafsjó af jarðsprengjum og á hverjum degi særast einhverjir eða deyja vegna þeirra.

Borgarstjórnin segist ekki hafa nægt fjármagn til að hreinsa til brakið sem fyllir göturnar. Hún hefur heldur ekki fé til að koma vatns- og rafmagnsveitunni aftur í gagnið.

Khodr breiðir út kort af borginni á skrifstofu borgarstjórnar. Hann bendir á þau hverfi sem verst urðu úti. „Hverfin í miðju borgarinnar urðu fyrir mestum skemmdum, 90% [bygginga] voru eyðilagðar samanborið við 40-60% í öðrum hverfum,“ segir hann. „Eyðileggingin er gríðarleg og það er ekki nægur stuðningur til úrbóta.“

Heilu hverfin í Raqqa eru nánast rústir einar eftir átökin …
Heilu hverfin í Raqqa eru nánast rústir einar eftir átökin milli Ríkis íslams og bandalagsherja fyrir ári. AFP

Abd al-Ibrahim situr á gangstétt í Al-Ferdaws-hverfinu með fötu sér við hlið. Árásir eyðilögðu heimili hans svo hann heldur nú til í öðru húsi. Þar hefur ekkert rennandi vatn verið dögum saman. „Ég kem hingað og sest niður og vonast til þess að einhver aki hjá og gefi mér vatn. En enginn kemur,“ segir hinn sjötugi Abd. Hann bendir á haug rústa rétt hjá. „Svona er húsið mitt núna. Við bjuggum í paradís. Sjáðu hvað kom fyrir okkur, við erum nú að betla vatn.“

Bandalagsríkin, sem tóku þátt í áhlaupinu við hlið sýrlensku lýðræðissveitanna, hafa boðið fram aðstoð við að aftengja jarðsprengjur, hreinsa brak og koma upp skólum að nýju í Raqqa. En þessi aðstoð hefur hingað til verið lítil og gengur hægt miðað við þá gríðarlegu eyðileggingu sem varð.

Stúlka stendur brosandi við heimili sitt í borginni Raqqa.
Stúlka stendur brosandi við heimili sitt í borginni Raqqa. AFP

„Það er ekki hægt að kalla þetta endurreisn, það eru innantóm orð,“ segir Samer Farwati þar sem hann stendur við rústir húss síns í Masaken al-Tobb-hverfinu. Hann borgar 120 dollara á mánuði í leigu nú þegar hús hans er ónýtt eftir loftárás. Farwati segist ekkert traust bera til yfirvalda. Þau hafi of oft svikið loforðin. „Ef þú hjálpuðu okkur þó væri ekki nema svolítið gætum við lokið verkinu. En það er engin von yfir höfuð.“

Svona er umhorfs á stærsta sjúkrahúsi Raqqa eftir loftárásirnar í …
Svona er umhorfs á stærsta sjúkrahúsi Raqqa eftir loftárásirnar í fyrra. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert