Mikill lögregluviðbúnaður í Stokkhólmi

Götum umhverfis Ingmar Bergman gata í Stokkhólmi hefur verið lokað.
Götum umhverfis Ingmar Bergman gata í Stokkhólmi hefur verið lokað. Kort/Google

Sænska lögreglan er nú með mikinn viðbúnað í Östermalm-hverfinu í Stokkhólmi eftir að bréf sem innihélt duft var sent í fyrirtæki í hverfinu, að því er sænska ríkisútvarpið SVT greinir frá.

Eru lögregla, hjálparsveitir og sjúkrabílar þegar komin á vettvang. Verið er að rannsaka innihaldsefnin í bréfinu, en á meðan hefur götum í kringum Ingmar Bergmans gata verið lokað. 

Segir Anna Westberg, talsmaður embættis lögreglustjóra, að lögreglumenn séu með hlífðargrímur til að fyllsta öryggis sé gætt.

SVT segir tíu manns hafa verið á staðnum þegar bréfið var opnað. Ekki liggi hins vegar fyrir hversu margir hafi komist í snertingu við duftið sem í því var, né heldur hvort að þeir hafi sýnt einhver einkenni.

Einhver fjöldi fólks verður þó sendur í sótthreinsun og mun hún taka nokkurn tíma að sögn Westberg. „Það eru engar upplýsingar um meiðsli á fólki eins og er,“ segir hún.

Lögregla rannsakar málið hins vegar sem ógn, en ekki liggur fyrir hversu langan tíma aðgerðir á vettvangi munu taka. SVT hefur þó eftir lögreglumanni á vettvangi að svo virðist sem einhverjir hafi sýnt viðbrögð við kemískum efnum.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert