Satt og logið varðandi jólatónleika

AFP

Nokkrar alþjóðlegar öfgasíður hafa haldið því fram að undanförnu að hætt hafi verið við árlega jólatónleika í Svíþjóð til að koma í veg fyrir að flóttafólk, sem er íslamstrúar, móðgaðist. Þetta er ekki réttur skilningur því ekki liggur ljóst hvort tónleikarnir verða haldnir þar sem fyrirtækið sem stendur að tónleikunum hefur ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Fréttavefurinn The Local fer yfir málið og hrekur fullyrðingar sem uppi hafa verið um tónleikana.

Tónleikarnir O Helga Natt hafa verið haldnir í Örebro frá árinu 2001 og eru stærstu jólatónleikarnir sem haldnir eru úti við í Svíþjóð. Síðustu tíu ár hefur þeim verið sjónvarpað en þeir verða ekki sýndir í ár og ekki liggur ljóst fyrir hvort tónleikarnir verða yfir höfuð haldnir.

Einn vefur heldur því fram að þetta sé líklega dæmi um hvernig sænskar hefðir líði undir lok til þess að móðga ekki flóttamenn sem halda ekki jólin hátíðleg. Málið er ekki útskýrt frekar. Þetta er birt á vefnum Voice of Europe og skrifar Emma R undir sem höfundur. Fréttin hefur síðan þá farið á fleiri vefi öfgasinna, svo sem Geller Report og Peter Sweden á Twitter.

Þar er vísað í frétt á vef sænska ríkissjónvarpsins, SVT Nyheter Örebro, sem birti í síðustu viku frétt um ákvörðunina um að tónleikarnir yrðu ekki sýndir í sjónvarpi. Jafnframt kom fram í fréttinni að óvíst væri um hvort tónleikarnir yrðu haldnir. En samkvæmt Voice of Europe kemur aftur á móti fram að búið væri að aflýsa tónleikunum.

TV4 mun ekki sýna O Helga Natt í ár, segir útsendingarstjóri SVT, Karin Dofs, í skriflegu svari til The Local. Það sé vegna þess að ekki liggi fyrir hvort tónleikarnir verði haldnir og að sjónvarpið geti ekki gert áætlanir byggðar á óvissu. Hún segir þetta miður en vonandi verði hægt að sýna tónleikana í sjónvarpi á næsta ári.

Hún segir að SVT þurfi að takast á við lygafréttir sem sé verið að dreifa um heiminn. „Ástæðan fyrir því að við tókum ákvörðun um að sýna ekki beint frá tónleikunum er sú óvissa um hvort þeir verða yfir höfuð haldnir. Þessi óvissa hefur ekkert með lygina að gera sem verið er að dreifa,“ segir hún.

Samkvæmt The Local kemur hið opinbera ekkert að ákvörðun um hvort tónleikarnir séu haldnir eða ekki heldur hafi verið ákveðið að setja tónleikana ekki á dagskrá TV4 sem er ein af sjónvarpsstöðvum SVT.

Í september tilkynnti markaðsfyrirtækið Örebrokompaniet, sem sér um markaðsmál fyrir sveitarfélagið Örebro, að það ætli að draga sig út úr samstarfinu og myndi ekki setja 900 þúsund sænskar krónur í verkefnið. Ástæðan væri sú að fyrirtækið sem annast skipulagningu tónleikanna, Ambitiös, hefur ekki staðið við skuldbindingar sínar. Ekki liggi fyrir fjárhagsáætlun né áætlun um hvaða atriði verða í boði á tónleikunum.

Christer Wilén, framkvæmdastjóri Örebrokompaniet, sagði í fréttatilkynningu að fyrirtækið geti ekki beðið lengur eftir þessum upplýsingum frá skipuleggjendum tónleikanna þar sem halda verði áfram með skipulagningu atburða í tengslum við jólin. Atburða sem eru mun stærri í sniðum en þessir tónleikar. 

Jafnframt kom þar fram að það væri í höndum skipuleggjenda, Ambitiös, að upplýsa íbúa um framhaldið. Ambitiös tók við skipulagi O Helga Natt árið 2016 eftir að fyrri tónleikahaldarar urðu gjaldþrota. Davor Dundic, forstjóri og eigandi Ambitiös, segir að helsta ástæðan fyrir því að fyrirtækið yfirtók þá sem áður stóðu að tónleikunum væru vinsældir jólatónleikanna en þetta var haft eftir honum fyrr á árinu. 

Engum fyrirspurnum The Local til fyrirtækisins varðandi tónleikana hefur verið svarað og upplýsingar um tónleikana hafa ekki verið uppfærðar frá því í febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert