Hættir við að mæta á ráðstefnuna

Bruno Le Maire er ráðherra efnahagsmála í ríkisstjórn Frakklands.
Bruno Le Maire er ráðherra efnahagsmála í ríkisstjórn Frakklands. AFP

Franski efnahagsmálaráðherrann, Bruno Le Maire, hefur ákveðið að hætta við þátttöku í stórri fjárfestingarráðstefnu í Sádi-Arabíu í næstu viku vegna hvarfs blaðamannsins Jamal Khashoggi.

„Ég mun ekki fara til Ríad í næstu viku,“ sagði Le Maire í viðtali á frönsku þingsjónvarpsrásinni og bætti við að það væri vegna aðstæðna sem nú væru uppi.

Samhljómur er í ummælum ráðherrans og forseta Frakklands, Emmanuel Macron, sem sagði í síðustu viku að hvarf Khashoggi væri mjög alvarlegt mál.

Le Maire er einn fyrsti vestræni stjórnmálamaðurinn sem hefur hætt við að mæta á ráðstefnuna Future Investment Initiative sem verður haldin í Ríad 23.-25. október. Fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Steven Mnuchin, mun í dag tilkynna um hvort hann mætir eður ei. Nokkrir þekktir kaupsýslumenn og vestrænir fjölmiðlar hafa aftur á móti þegar tilkynnt um að þeir mæti ekki til rástefnunnar sem er skipulögð af fjárfestingarsjóði konungdæmisins.

Khashoggi, sem bjó í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum þar sem hann skrifaði fyrir Washington Post, hvarf eftir komuna á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu 2. október. 

Tyrknesk yfirvöld segja að hann hafi verið myrtur og líkið sundurlimað á ræðismannsskrifstofunni en því neita yfirvöld í Sádi-Arabíu.

Líkt og kom fram á mbl.is í gærkvöldi hafa bandarísk yfirvöld farið fram á það við Tyrki að fá hljóðupptökur afhentar en þær eiga að sanna að Jamal Khashoggi hafi verið myrtur á ræðismannsskrifstofunni. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði í gærkvöldi að óskað hafi verið eftir upptökunum, það er ef þær eru til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert