Íhuga tillögu um lengri aðlögunartíma

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að enn sé stefnt að …
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að enn sé stefnt að því að ljúka aðlögunartíma Bretlands eftir útgöngu úr ESB í desember 2020. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, staðfesti í morgun að bresk stjórnvöld íhuga að fallast á að framlengja aðlögunartíma eftir Brexit ef þörf þykir, til að ganga frá nýjum viðskiptasamningi við Evrópusambandið.

Michael Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins, lagði fram þessa tillögu í þeim tilgangi að liðka fyrir viðræðum um hvernig landamærum við Írland og Norður-Írland verður háttað eftir útgöngu Breta. Landamærin hafa verið erfiðasta úrlausnarefni samningaviðræðnanna hingað til.

May lagði áherslu á að hún reiknaði ekki með að til þess kæmi að framlengja þyrfti aðlögunartímann og að enn sé stefnt á að honum verði lokið í desember 2020.

Viðræður breskra stjórnvalda og Evrópusambandsins hafa samt sem áður lítið þokast á leiðtogafundi sambandsins sem hófst í Brussel í gær og heldur áfram í dag. Í gærkvöldi var ákveðið að auka-leiðtogafundi ríkja Evrópusambandsins, sem fyrirhugaður var í nóvember, verði aflýst þar sem May hefur ekkert nýtt fram að færa í deilunni um landamæri Írlands og Norður-Írlands.

Úrsögn Breta úr Evrópusambandinu tekur gildi 29. mars á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert