Lifði af námavist með höggormum

Námugöngin sem Wadell hrapaði niður í er búnaður hans gaf …
Námugöngin sem Wadell hrapaði niður í er búnaður hans gaf sig. Ljósmynd/Lögreglan í Maricopa

Karlmaður nokkur í Arizona lifði af tveggja daga vist fastur í yfirgefinni námu í félagi við höggorma. Drap hann þrjá snákanna á meðan að hann beið eftir að hjálp bærist, að því er BBC hefur eftir björgunarmönnum.

Maðurinn, John Waddell sem er á sjötugsaldri, var að láta sig síga 30 metra leið niður í námuna þegar útbúnaður hans gaf sig. Hann fótbrotnaði á báðum fótum við fallið og hafðist við í námunni í tvo sólarhringa án nokkurs matar eða drykkjar þar til vinur hans fann hann.

Það tók björgunarmenn sex tíma að koma honum upp úr námunni, en að því loknu var flogið með hann á sjúkrahús.

Fjölmiðlar í Arizona hafa eftir Terry Schrader, vininum sem fann Waddell, að hann hafi hringt í sig á mánudagskvöldið og látið sig vita að hann ætlaði að fara niður í námuna að leita að gulli og öðrum eðalmálmum. Bað hann Schrader að kanna ástandið á sér ef hann væri ekki kominn heim á þriðjudag.

Schrader hélt því að námunni sem er á landareign Wadells á miðvikudaginn. „Þegar ég kom út úr bílnum heyrði ég hann hrópa: „Hjálp, hjálp“,“ sagði Schrader og kvaðst finna til sektar að hafa ekki athugað með hann fyrr.

Náman er á afskektu svæði og símasambandslaus, þannig að Schrader varð að aka út í eyðimörkina á ný til að geta haft samband við neyðarþjónustuna.

Að sögn Schrader er Wadell „harður náungi“, sem er þó með tvö gervihné og er annað þeirra illa farið eftir slysið.

Annar vinur Wadells, Mike Balowski, sagði í samtali við KSAZ-TV sjónvarpsstöðina að hann teldi Wadell hafa drepið höggormana af því að hann var svangur.

„Ég sagði honum að ég myndi gefa honum spark í afturendann þegar honum batnar fyrir að vera ekki með einhvern með sér,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert