Sterkar vísbendingar um ábyrgð prinsins

Sawers segir Bandaríkjamenn hafa gefið krónprinsinum þá hugmynd að hann …
Sawers segir Bandaríkjamenn hafa gefið krónprinsinum þá hugmynd að hann gæti gert hvað sem er, án afleiðinga. AFP

Fyrrverandi yfirmaður bresku leyniþjónustunnar MI6, John Sawers, segir sönnunargögn benda sterklega til þess að Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, standi á bak við morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi, sem ekkert hefur spurst til síðan hann fór inn á ræðismannaskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl þann 2. október síðastliðinn. The Guardian greinir frá.

Hann segir kenningar um að stjórnlausir morðingjar beri ábyrgð á dauða blaðamannsins, blygðunarlausan uppspuna. Mat sitt byggir Sawers á upplýsingum sem hann hefur aflað sér og þekkingu sinni á tyrknesku leyniþjónustunni.

Hann lét þessi ummæli falla eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði það sannarlega líta út fyrir að Khashoggi væri dáinn og að ef í ljós kæmi að æðstu ráðamenn Sádi-Arabíu bæru ábyrgð á dauða hans þá myndi hafa afleiðingar í för með sér.

Bandaríkjamenn hafi leyft prinsinum að komast upp með hvað sem er

Sawers, sem lét af störfum sem yfirmaður MI6 árið 2014, sagði hins vegar að krónprinsinn hefði aldrei gripið til þessara aðgerða nema af því stjórnvöld í Bandaríkjunum leyfi honum að komast upp með hvað sem er.

„Ég tel að Trump og hans teymi séu nú að átta sig á því hve hættulegt það er að gefa ráðamönnum annarra ríkja það til kynna að þeir geti hagað sér hvernig sem er án þess að það hafi nokkur áhrif á samband þeirra við Bandaríkin,“ sagði Sawers. „Ef það sannast, sem virðist verða gert, að prinsinn hafi fyrirskipað morðið, er það of langt gengið. Þá verða Bandaríkin, Evrópusambandið og Bretland að bregðast við.“

En hvarf blaðamanns­ins hef­ur þegar haft mik­il áhrif á sam­skipti stjórn­valda í Ríad og vest­rænna banda­manna þeirra. Hafa banda­rísk­ir, fransk­ir og bresk­ir ráðherr­ar til að mynda ákveðið að sitja heima þegar fjár­fest­ing­ar­sjóður kon­ung­dæm­is­ins held­ur fjár­fest­ing­ar­ráðstefnu í næstu viku. 

Ekki ósennilegt að skrifstofan hafi verið hleruð

Sawers sagðist bera virðingu fyrir nákvæmni og fagmennsku tyrknesku leyniþjónustunnar og að upplýsingarnar sem gefnar hefðu verið um málið væru þess eðlis að nokkuð öruggt væri að einhvers konar upptökur væru til, sem tyrknesk stjórnvöld hefðu undir höndum. Upptökurnar hafa hins vegar ekki verið birtar opinberlega og og tyrknesk stjórnvöld hafa neitað að afhenda Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, eða nokkrum öðrum bandarískum ráðamanni upptökurnar. Lýsingar á morðinu hafa þó lekið út, en þær eru sagðar byggðar á gögnum sem leyniþjónustan hefur undir höndum.

Hann benti á mikil spenna hefði ríkt á milli Tyrklands og Sádi-Arabíu síðastliðinn áratug og það lægi fyrir að Tyrkir fylgdust vel með Sádi-Aröbum. Það gæti því allt eins verið að þeir hefðu hlerað ræðismannsskrifstofuna að einhverju leyti.

Leitað hefur verið að líki Khashoggi í skógi skammt frá Istanbúl, en það virðist talið að því hafi jafnvel verið komið fyrir þar eða á ræktuðu svæði skammt frá. Þá hafa fimmtán starfsmenn sádiarabísku ræðismannsskrifstofunnar í Istanbúl verið yfirheyrðir af saksóknurum. Starfsmennirnir eru allir tyrkneskir og teljast vitni í málinu.

mbl.is