„Sama hvort hún er fjandans fötluð eða ekki“

Viðbrögð flugáhafnar Ryanair vegna mannsins hafa vakið mikla reiði.
Viðbrögð flugáhafnar Ryanair vegna mannsins hafa vakið mikla reiði. AFP

Flugfarþegar hafa hótað að sniðganga Ryanair-lággjaldaflugfélagið eftir að áhöfn um borð í flugi félagsins frá Barcelona til London vísaði ekki manni, sem sýndi af sér kynþáttahatur, frá borði. Myndefni af manninum kalla konu „ljótan svartan bastarð“ hefur vakið mikla reiði og hefur verið deilt yfir tugþúsund sinnum á Facebook.

Hét flugfélagið því í yfirlýsingu sem það sendi frá sér nú síðdegis að banna farþegum sem sýni af sér kynþáttahatur að ferðast með vélum sínum.

Breska dagblaðið Independent fjallar um málið og segir að svo virðist sem komið hafi til rifrildis eftir að konan var ekki nógu snögg að flytja sig í sæti sínu við ganginn til að maðurinn kæmist í sæti sitt við gluggann.

Einn farþeganna, David Lawrence, tók myndskeið af því þegar maðurinn hrópar á konuna að skipta um sæti á sama tíma og dóttir konunnar segir honum að móðir hennar sé fötluð.

„Mér er sama hvort hún er fjandans fötluð eða ekki  – ef ég segi henni að flytja sig þá flytur hún sig,“ heyrist maðurinn segja.

Einn úr flugáhöfninni spyr konuna því næst hvort að hún vilji flytja sig yfir í annað sæti og svarar hún því til að hún vilji sitja nálægt dóttur sinni.

„Flytjið hana annað,“ grípur maðurinn þá inni í . „Ég kemst ekki að á meðan að hún situr þarna.“

Því svarar konan til: „Þú lyktar. Það þarf að þvo þér.“ Þá segir maðurinn: „Ef þú flytur þig ekki í annað sæti þá ýti ég þér í annað sæti.“

Síðar í rifrildinu heyrist maðurinn svo segja við konuna: „Ekki tala við mig á einhverri helvítis útlensku, þú heimska ljóta belja.“ Farþegi í vélinni reynir þá að skipta sér af og biður manninn að vera ekki svona móðgandi. Því svarar hann hins vegar til:  „Ég mun ganga eins langt og ég get gagnvart þessum ljóta svarta bastarði.“

Flugliðinn segir manninn vera „ofurdónalegan“ og biður hann að róa sig, en á meðan heyrast fjölmargar raddir farþega hvetja til þess að honum verði vísað úr vélinni. Starfsmaður Ryanair segir hins vegar við manninn að flugfélagið sætti sig ekki við móðgandi hegðun og að hann verði að ræða málið frekar við yfirmann sinn, en vísar honum ekki frá borði.

Independent segir fjölda stjórnmálamanna hafa lýst yfir áhyggjum af aðgerðaleysi Ryanair vegna málsins.  „Það hefði átt að fjarlægja hann úr vélinni og afhenda hann lögreglu,“ sagði Karl Turner, þingmaður verkamannaflokksins, á Twitter.

Skosku þingmennirnir Stuart McMillan og Margaret Ferrier hafa einnig tjáð sig um málið. „Þetta er ömurlegt Ryanair,“ sagði McMillan og Ferrier sagði að  taka hefði átt kynþáttahatarann „úr vélinni áður en hún fór í loftið“. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert