Hver ber ábyrgð á slysinu?

Fólk kom saman við lestarteinana um helgina til að minnast …
Fólk kom saman við lestarteinana um helgina til að minnast þeirra sem létust. AFP

Allt er á suðupunkti á Indlandi eftir að 58 fórust, þeirra á meðal börn, þegar lest ók á mannfjölda í nágrenni borgarinnar Am­rits­ar í Punjab-héraði á föstudag. Mannfjöldinn stóð á lestarteinunum og fylgdist með hátíðarhöldum tengd­um Duss­hera, einni af trú­ar­hátíðum hind­úa.

Fólkið var ekki varað við því að lest væri á leiðinni og fáir heyrðu hana koma vegna hávaða í flugeldum tengdum hátíðarhöldunum. Ekki er ljóst hver ber ábyrgð á slysinu.

„Hátíðarhöld breyttust í hrylling,“ sagði Manjit Singh en hann er einn þeirra sem rétt slapp undan lestinni. Vitni lýstu því hvernig fólk leitaði að ættingum sínum í grennd við lestarteinana í myrkrinu. Kona greip barn sem maður henti upp í loftið rétt áður en hann varð fyrir lestinni og lét lífið.

„Fólk sat á lestarteinunum og fylgdist með hátíðarhöldunum,“ sagði fyrrverandi stjórnmálamaðurinn Navjot Kaur, en hann yfirgaf svæðið rétt áður en lestin keyrði á fólkið.

„Skipuleggjendur fá leyfi frá járnbrautinni þegar svona viðburðir eru. Lestin hefði átt að fara hægar. Hún hefði átt að stoppa eða þá að lestarstjórinn hefði átt að flauta ítrekað til að fólkið færi af teinunum,“ bætti hann við.

Yfirmenn járnbrauta hafa látið hafa eftir sér að vegna myrkurs og reyks hafi lestarstjórinn ekki séð fólkið. Auk þess hafi verið beygja á teinunum rétt áður en lestin kom að fólkinu og þess vegna hafi verið enn erfiðara fyrir lestarstjórann að bregðast við í tæka tíð.

Lögreglustjórinn í héraðinu segir að skipuleggjendur hátíðarhaldanna hafi greint lögreglu frá hátíðarhöldunum. Lögregla hafi gefið leyfi fyrir hátíðinni en sagði enn fremur að slökkvilið, yfirmenn lestanna og heilbrigðiseftirlitið yrðu að gefa leyfi sitt fyrir hátíðinni. Ekki var haft samband við neinn þessara aðila.

Mithu Madan, aðalskipuleggjandi hátíðarinnar, segist ítrekað hafa beðið fólk um að standa ekki á lestarteinunum. Hann sagði að skipuleggjendur hefðu haft öll tilskilin leyfi og bætti við að allt hefði verið gert til að tryggja öryggi fólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert