Lengsta brú heims tilbúin

Brúin tengir saman margar borgir. Í henni má finna 400 …
Brúin tengir saman margar borgir. Í henni má finna 400 þúsund tonn af stáli. Af Wikipedia

Í þessari viku verður lengsta brú heims sem liggur yfir sjó loks opnuð, níu árum eftir að bygging hennar hófst. Brúin tengir Hong Kong og Macau við meginland Kína, borgina Zhuhai. Bygging brúarinnar hefur kostað 20 milljarða dollara, um 2.300 milljarða króna.

Í frétt CNN um málið segir að búist sé við því að forseti Kína, Xi Jinping, muni mæta til vígslu brúarinnar í Zhuhai á morgun, þriðjudag, auk stjórnmálamanna frá Hong Kong og Macau. Brúin verður opnuð fyrir almennri umferð á miðvikudag.

Brúin er hluti af verkefni sem á að tengja svæði í suðurhluta Kína betur saman og þar með ellefu borgir þar sem íbúarnir eru samtals 68 milljónir talsins. Brúin mun stytta ferðatíma um allt að þrjár og hálfa klukkustund og með henni skapast stærra atvinnusvæði.

Íbúar í Hong Kong eru þó ekkert sérstaklega spenntir fyrir framkvæmdinni. Margir þeirra segja enga spurn hafa verið eftir því að tengjast betur Macau eða Zhuhai og óttast að með brúnni aukist enn frekar ferðamannastraumur til Hong Kong sem sé nú þegar gríðarlegur. Þá segja helstu gagnrýnendur brúarinnar að með henni eigi að draga Hong Kong nær kínverskum yfirvöldum en Hong Kong hefur í dag mikla sjálfsstjórn, m.a. sjálfstætt dómskerfi.

En aftur að mannvirkinu sjálfu. Brúin er hönnuð til að þola allt að 8 stiga jarðskjálfta, ofurfellibyli og áföll á borð við árekstur risavaxinna flutningaskipa. Í henni er að finna um 400 þúsund tonn af stáli sem er 4,5 sinnum meira en er í Golden Gate-brúnni í San Francisco. Hluti leiðarinnar fer um göng neðansjávar, samtals um 6,7 kílómetra vegalengd. Samtals er þessi tenging milli Kína, Macau og Hong Kong 55 kílómetrar að lengd.

Brúin tengir Macau, Hong Kong og meginland Kína um borgina …
Brúin tengir Macau, Hong Kong og meginland Kína um borgina Zhuhai.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert