Tugir slösuðust er gólfið gaf sig

Að minnsta kosti þrjátíu manns slösuðust er gólfið gaf sig.
Að minnsta kosti þrjátíu manns slösuðust er gólfið gaf sig. Skjáskot/Twitter

Að minnsta kosti þrjátíu manns slösuðust í gleðskap nærri Clemson-háskólanum í Suður-Karólínu aðfaranótt sunnudags, er gólf í húsnæði Kappa Alfa Psí-bræðralagsins við skólann gaf sig undan hópi hoppandi fólks.

Samkvæmt frétt BBC um málið voru 23 fluttir á spítala og hlutu einhverjir þeirra beinbrot við fallið, en enginn slasaðist lífshættulega.

„Bítið var að fara að „droppa“ og svo hrapaði allt gólfið,“ sagði háskólanemandinn Larissa Stone í samtali við staðarmiðilinn Greenville News, sem segir sex manns enn á spítala.

Augnablikið er gólfið gaf sig náðist á myndskeið og má sjá hér að neðan.

Húsnæði Kappa Alfa Psí-bræðralagsins er ekki inni á skólalóð Clemson-háskólans, en skólayfirvöld sendu frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem þau segjast vera að vinna að því að komast að því hversu margir hinna slösuðu séu nemendur við skólann.

mbl.is