„Við brugðumst ykkur“

Carolyn Unwin, 74 ára, er ein þeirra sem kom í …
Carolyn Unwin, 74 ára, er ein þeirra sem kom í þingið í dag til þess að hlýða á afsökunarbeiðni til fórnarlambanna. Hún var eitt þeirra barna sem var beitt kynferðislegu ofbeldi. AFP

Forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, hefur beðið þolendur barnaníðs afsökunar fyrir hönd þjóðarinnar. 

Morrison flutti tilfinningaþrungið ávarp í þingi landsins í Canberra í morgun að viðstöddu fjölmenni. Afsökunarbeiðnin kemur í kjölfar fimm ára rannsóknar sem leiddi í ljós að tugir þúsunda barna hafa verið beitt kynferðislegu ofbeldi af hálfu starfsmanna á stofnunum á vegum hins opinbera.

Hann segir að það veki furðu hvers vegna hörmungar þessara barna og foreldra þeirra hafi verið hunsuð svo lengi og hvers vegna réttarkerfi landsins sé svo blint þegar kemur að óréttlæti. „Hvers vegna tók svona langan tíma að bregðast við?“ spurði hann. 

Þeir sem komu að rannsókninni ræddu við yfir átta þúsund fórnarlömb um ofbeldið sem þau urðu fyrir af hálfu starfsmanna kirkjunnar, skóla og íþróttafélaga. Morrison átti erfitt um mál þegar hann flutti ávarpið og segir óskiljanlegt hvernig þetta hafi verið látið viðgangast.

„Sem þjóð brugðumst við þeim. Við yfirgáfum þau og það verður okkur alltaf skömm,“ sagði hann. Ofbeldið hafi átt sér stað meðal starfsmanna skóla, kirkju, heimila fyrir munaðarlausa auk annarra stofnana víða um Ástralíu. „Við trúum ykkur.“

Í dag biðjumst við börnin sem við brugðumst afsökunar, sagði Morrison og bætti við að afsökunin næði einnig til foreldra þessara barna. Eins þau sem greindu frá en ekki var hlustað á. 

Hann vísaði í orð eins þeirra sem varð fyrir ofbeldinu: Það var ekki útlendur óvinur sem gerði okkur þetta. Þetta var gert af Áströlum við Ástrala. Óvinum meðal vor, óvinum meðal vor. Andstæðingar sakleysisins. Þetta gerðist dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, um áratugaskeið. Sífelldar pyntingar.“

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu.
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu. AFP

Scott Morrison bætti við að þegar börn greindu frá var þeim ekki trúað og glæpirnir héldu áfram án refsingar. 

Eitt fórnarlambanna hafi sagt honum frá því að þegar hann lét kennara sinn vita hafi sá orðið næsti níðingur. Traustið eyðilagt, sá saklausi svikinn. Völd og staða misnotuð í krafti hins illa fyrir djöfullega glæpi.

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar á ástralska þinginu, Bill Shorten, ávarpaði einnig þingheim og gesti og sagði að ekki sé hægt að bæta fyrir það illa sem gert hafi verið en í dag biðji Ástralía afsökunar. Að loknum ræðum var mínútulöng þögn af hálfu þingheims.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert