„Má aldrei gerast aftur“

AFP

Morð á gagnrýnanda eins og blaðamanninum Jamal Khashoggi er eitthvað sem má aldrei gerast aftur, segir utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, Adel al-Jubeir. Hann heitir því að málið verði rannsakað ofan í kjölinn. Þetta kom fram í máli al-Jubeir er hann ræddi við fjölmiðla að loknum fundi með indónesískum starfsbróður í Jakarta í morgun.

Hann segir að kerfinu verði breytt á þann veg að svona geti aldrei gerst aftur. Haft var eftir al-Jubeir á Fox sjónvarpsstöðinni í gærkvöldi að óþekktir þrjótar stæðu á bak við morðið.

Utanríkisráherra Indónesíu, Retno Marsudi, segir að stjórnvöld í Indónesíu hafi miklar áhyggjur af morðinu á Khashoggi á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbul fyrr í mánuðinum. Yfirvöld í Tyrklandi segja að um grimmilegan ásetning hafi verið að ræða en forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, mun síðar í dag upplýsa um sannleikann á bak við morðið. 

Omer Celik, talsmaður flokks Erdogans, segir að morðið hafi verið skipulagt á einstaklega grimmilegan hátt og að gripið hafi verið til margvíslegra aðgerða til þess að fela það. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert