Majorstuen-maðurinn handtekinn í Frakklandi

Grete Lien Metlid og Christian Hatlo greina frá handtökunni í ...
Grete Lien Metlid og Christian Hatlo greina frá handtökunni í Majorstuen-málinu í dag sem fór fram i Dijon í Frakklandi. Ljósmynd/Skjáskot af beinni útsendingu frá blaðamannafundi NRK

„Þetta er eitt hrottalegasta mál sem Norðmenn hafa staðið frammi fyrir í lengri tíma,“ sagði Olav Rønneberg, afbrotafréttamaður norska ríkisútvarpsins NRK, í viðtali nú fyrir skömmu og átti við þegar hinn 24 ára gamli Heikki Bjørklund Paltto var stunginn tuttugu sinnum á heimili sínu í Majorstuen í Ósló í hádeginu á mánudaginn í síðustu viku. Tilefni viðtalsins var handtaka grunaðs ódæðismanns, hins tvítuga sænska Makaveli Lindén, í Dijon í Frakklandi í dag en Lindén hefur síðan í síðustu viku verið eftirlýstur í 190 löndum og hefur mbl.is fjallað um málið.

Lögreglan í Ósló hélt blaðamannafund klukkan 19:30 í kvöld, 17:30 að íslenskum tíma, þar sem Grete Lien Metlid, rannsóknarlögreglukona og stjórnandi rannsóknarinnar, kynnti síðustu tíðindi í málinu ásamt Christian Hatlo, lögmanni lögreglunnar.

„Hinn eftirlýsti var handtekinn í Dijon í Frakklandi í dag. Lögreglan hyggst ekki fara nánar út í þau gögn sem leiddu til handtökunnar en mun nú fara fram á framsal mannsins til Noregs og við höfum mikinn áhuga á að heyra hans hlið á málinu,“ sagði Metlid og var ekki laust við að rödd hennar skylfi örlítið sem er óvenjulegt þegar þessi kona á í hlut sem yfirleitt stendur sem granítdrangur fyrir framan myndavélar fjölmiðla og les afbrotamönnum Óslóar pistilinn.

Saklaus uns sekt er sönnuð

Því næst tók Christian Hatlo til máls og útskýrði fyrir viðstöddum að lögregla hefði neytt allra meðala til að koma höndum yfir Lindén. „Við höfum fetað allar leiðir og átt í samstarfi við Europol, Interpol og Eurojust,“ sagði Hatlo og bætti því við að norska lögreglan hygðist þegar í stað senda hóp yfirheyrslufólks til Frakklands til að ræða við Lindén og byrja að gera sér heildarmynd af því sem átti sér stað þetta mánudagshádegi í Majorstuen.

Olav Rønneberg fréttamaður, sem ræddi við NRK eftir blaðamannafundinn, minnti á þá gamalgrónu reglu að hver maður teljist saklaus uns sekt hans er sönnuð og sagði enn fremur frá því að lögreglu hefðu borist rafrænar vísbendingar um ferðir Lindéns og rakið þær frá Uppsala í Svíþjóð, þaðan til Belgíu og áfram til Frakklands en talið var að Lindén hefði tekið lest til Svíþjóðar fljótlega eftir ódæðið en ekki dvalið þar lengi.

Óslóarbúar hafa verið miklum óhug slegnir eftir atburðina í Majorstuen og bættu ekki úr skák fréttir af því að Makaveli Lindén hefði hringt dyrabjöllu hinum megin í Ósló nokkrum klukkustundum fyrr og beðið um vatnsglas. Lögregla telur því ljóst að hinn ástsæli fyrrverandi knattspyrnumaður og -þjálfari, Heikki Paltto, sem mætti örlögum sínum í hádeginu mánudaginn 22. október, hafi verið valinn af fullkomnu handahófi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Vantar Trampólín
Viltu lostna við Trampólínið þitt, kem og tek það niður ef vill... upp. 8986033...
- Studio íbúð til leigu.
Til leigu í Biskupstungum fyrir 1-2, bað/sturta og eldhús, gasgrill. leigist ...
Til leigu .
Svefnherbergi og stofa með snyrtingu í Kópavogi . Leigan er kr. 90.þús. pr.mán....
* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...