Tyrkir ætla að upplýsa morðið

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, fullvissaði fjölskyldu sádiarabíska blaðamannsins Jamals Khashoggi, sem myrtur var á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í borginni Istanbúl í Tyrklandi, um að tyrknesk stjórnvöld myndu gera allt til þess að upplýsa málið.

Þetta kemur fram í frétt AFP og vísað í upplýsingar frá forsetaskrifstofu Tyrklands. Þar segir að Erdogan hafi rætt við son Khashoggis, Abdullah Khashoggi, og aðra í fjölskyldu hans og sagt þeim að Tyrkland myndi gera allt sem þurfti til þess að leysa morðmálið. Þá hefur Erdogan krafist þess að öllum þeim sem ábyrgð bera á morðinu verði refsað.

Forsetinn krafðist þess einnig í dag að sjálfstæð rannsókn færi fram á málinu, en ráðamenn í Sádi-Arabíu eru sakaðir um að hafa komið að morðinu. Þá einkum krónprins landsins, Mohammed bin Salman sem er sagður mjög valdamikill í skjóli föður síns.

Greint var frá því í dag að talið sé að líkamsleifar Khashoggis séu fundnar. Breska sjónvarpsstöðin Sky hefur það eftir heimildarmanni að þær hafi fundist í garði við heimili ræðismanns Sádi-Arabíu. Kemur fram í fréttinni að þær séu mjög illa farnar.

Hinum seku refsað „sama hverjir þeir kunna að vera“

Ríkisstjórn Sádi-Arabíu lýsti því yfir í dag að allir þeir sem hefðu komið að morðinu á Khashoggi yrðu látnir sæta ábyrgð „sama hverjir þeir kunna að vera“. Stjórnvöld í Sádi-Arabíu hafa verið harðlega gagnrýnd vegna málsins á alþjóðavettvangi.

Khashoggi var myrtur eftir að hann fór í ræðismannsskrifstofuna 2. október, en ljóst þykir að morðið hafi verið þaulskipulagt. Meðal annars var reynt að láta líta út fyrir að blaðamaðurinn hefði yfirgefið skrifstofuna, en annar maður yfirgaf hana í gervi hans.

Khashoggi hafði búið í Bandaríkjunum frá því á síðasta ári frá því að Mohammed bin Salman var útnefndur ríkisarfi. Hann var pistlahöfundur hjá bandaríska dagblaðinu Washington Post og gagnrýndi stjórnvöld í Sádi-Arabíu í skrifum sínum. Ekki síst krónprinsinn.

Lengi vel neituðu sádiarabísk stjórnvöld því að Khashoggi væri látinn en viðurkenndu á laugardaginn að hann hefði verið myrtur á ræðismannsskrifstofunni. Hins vegar sögðu þau að morðið á honum hefði ekki verið framið með þeirra samþykki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert