Sprengjunum beint að demókrötum

Þetta er umslagið sem barst inn á skrifstofur CNN í …
Þetta er umslagið sem barst inn á skrifstofur CNN í New York í dag.

Mikil spenna er nú í Bandaríkjunum eftir að umslög sem talin eru innihalda sprengjur voru send til nokkurra demókrata, þeirra á meðal Barack Obama og Hillary Clinton, auk þess sem bréfsprengja barst inn á skrifstofur CNN í New York. Ekki er vitað hver er að verki, en umfangsmikil rannsókn stendur yfir.

Umslagið sem barst til CNN var stílað á John Brennan, sem stjórnaði leyniþjónustunni CIA í forsetatíð Obama, en er nú reglulega álitsgjafi fyrir CNN. Eftir að umslagið fannst voru skrifstofur CNN rýmdar og byrjuðu brunabjöllur Time Warner-byggingarinnar á Manhattan að glymja á meðan að fréttaþulir sjónvarpsstöðvarinnar voru í beinni sjónvarpsútvarsstöðvar.


Fjórða bréfið var stílað á Eric Holden, sem var dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Obama, en það var stílað á rangt heimilisfang og barst á skrifstofu Debbie Wasserman Schultz, sem er þingmaður demókrata í Flórída-ríki, þar sem umslagi var merkt eins og það kæmi frá henni.

Fimmta bréf dagsins sem fjölmiðlar vestanhafs greina frá var ætlað Maxine Waters, sem er þingmaður demókrata, en pakkinn til hennar var stöðvaður í póstmiðstöð Bandaríkjaþings vegna grunsemda um að ekki væri allt með felldu.

Á mánudag barst svo bréfsprengja heim til auðkýfingsins George Soros og það svipar mjög til þeirra bréfa sem bárust viðtakendum í dag, svo í heildina eru bréfsprengjurnar orðnar sex, samkvæmt því sem CNN greinir frá.

Umfangsmikil rannsókn í gangi

Alríkislögreglan FBI sendi frá sér tilkynningu fyrr í kvöld þar sem almenningur var hvattur til að vera á varðbergi þar sem mögulegt væri að fleiri bréfsprengjur hefðu verið póstlaðar. Því er beint til fólks að meðhöndla ekki grunsamlega eða ókunna pakka.

Ljósmynd/FBI

„Þessi rannsókn er í hæsta forgangi hjá FBI,“ sagði Chris Wray, yfirmaður alríkislögreglunnar í yfirlýsingu, en ekkert hefur komið fram um það hverjir standa mögulega að baki tilræðunum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í yfirlýsingu í Hvíta húsinu í dag að að hvers kyns pólitískt ofbeldi verði ekki liðið í Bandaríkjunum og að yfirvöld myndu beita sér af fullum þunga til þess að finna þá sem standi á bak við sprengjusendingarnar.

„Ég vil segja það að við þess­ar aðstæður þurf­um við sam­ein­ast og senda mjög skýr skila­boð um að hvers kyns póli­tískt of­beldi á sér verði ekki liðið í Banda­ríkj­un­um,“ sagði Trump er hann ávarpaði blaðamenn í Hvíta húsinu.

Hvorki sprengja hjá Cuomo né Harris

Eftir að fréttir af bréfsprengjunum bárust voru ýmsir á nálum og „grunsamlegur pakki“ stöðvaður og tekinn til skoðunar á skrifstofu Andrew Cuomo, ríkisstjóra í New York. Síðar kom í ljós að þar var enga sprengju að fyrra.

Einnig var ákveðið að rýma skrifstofu Kamala Harris, þingmanns Demókrataflokksins, í borginni San Diego, eftir að grunsamlegir pakkar sáust í nágrenni við húsið. Þar reyndust áhyggjurnar sömuleiðis óþarfar.

Sprengjusérfræðingar að störfum í New York í dag.
Sprengjusérfræðingar að störfum í New York í dag. AFP

Orðræða Trump-stjórnarinnar gagnrýnd

Eins og fram hefur komið eru allir ætlaðir viðtakendur bréfanna yfirlýstir stuðningsmenn Demókrataflokksins eða beinir þátttakendur í stjórnmálum fyrir hönd flokksins.

Í kjölfar þess að pakki barst á skrifstofur CNN á Manhattan sagði forstjóri fyrirtækisins að það ríkist „algjört skilningsleysi“ í Hvíta húsinu um að þrálátar árásir Trump-stjórnarinnar á fjölmiðla væru alvarlegar.

Alexander Soros, sonur George Soros, skrifar í skoðanagrein í New York Times í dag að bréfasprengjurnar í dag séu afleiðing þess hversu klofin og hatursfull stjórnmálaumræðan í Bandaríkjunum sé orðin, eftir að Donald Trump varð forseti. Trump hefur meðal annars sakað föður hans, án þess að leggja fram nokkur gögn, um að borga fólki fyrir að mótmæla sér.

Í sameiginlegri yfirlýsingu sögðu þau Nancy Pelosi og Chuck Schumer að orð Bandaríkjaforseta frá því fyrr í dag, um samstöðu og að pólítísk ofbeldi yrði ekki liðið, væru „orðin tóm“ nema hann hætti að „samþykkja ofbeldisverk“ með orðræðu sinni.

Búist er við því að Donald Trump ræði frekar um þessi tilræði á kosningafundi í Wisconsin í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert