Flestir vilja samning eins og Kanada

AFP

Mestur stuðningur er á meðal breskra kjósenda við að fríverslunarsamningur verði gerður á milli Bretlands og Evrópusambandsins í anda samnings Kanada við sambandið í kjölfar þess að Bretar segja skilið við það. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar.

Könnunin var gerð dagana 8.-10. október í gegnum síma af ráðgjafarfyrirtækinu IQR fyrir bresku samtökin Global Britain. Samkvæmt niðurstöðunum vilja 26% breskra kjósenda fríverslunarsamning á hliðstæðum nótum og samningur Kanada, 24% vildu að samið yrði á grundvelli reglna Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og 17% að ekki yrði samið.

Fimmtán prósent vildu að fram færi önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort Bretar ættu að ganga úr Evrópusambandinu, en samþykkt var í þjóðaratkvæði sumarið 2016 að yfirgefa sambandið, 11% vildu aðild að EFTA og EES-samningnum, líkt og Ísland, Noregur og Liechtenstein, og 6% Chequers-tillögu Theresu May, forsætisráðherra Bretlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert