Hótar árás geymi Evrópa kjarnavopnin

Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir hættulegt að rifta samninginum.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir hættulegt að rifta samninginum. AFP

Rússar munu svara í „sömu mynt“ komi Bandaríkjamenn nýjum kjarnavopnum fyrir í ríkjum Evrópu. Við þessu varar Vladimír Pútín Rússlandsforseti og kvað hvert það Evrópuríki sem slíkum vopnum yrði komið fyrir í eiga á hættu að Rússar gerðu á það árás.

Sagði Pútín hættulegt að rifta samningnum og slíkt fæli í sér nýtt vígbúnaðarkapphlaup. „Mikilvægasta spurningin er hvað Bandaríkin ætla að gera við flugskeytin sem þau koma upp ef samningnum verður rift,“ sagði Pútín á fundi með fjölmiðlum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti á laugardag að hann ætlaði að rifta svokölluðu INF- afvopnunarsamkomulagi við Rússa, sem þeir Ronald Reagan, þáverandi forseti Bandaríkjanna, og Mikhail Gorbachev, sem var leiðtogi Sovétríkjanna, undirrituðu í Washington 1987. Sagði Trump Rússa þegar hafa brotið gegn samkomulaginu.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, er því sammála að Rússar hafi líklega þegar rofið samkomulagið. NATO hafi hins vegar engan áhuga á árekstrum en sé reiðubúið að verja bandalagsríki sín gegn hverri þeirri ógn sem þau standi frammi fyrir.

BBC hefur eftir forsvarsmönnum NATO að ólíklegt sé að Atlantshafsbandalagið muni flytja fleiri kjarnavopn til Evrópu fari svo að afvopnunarsamkomulag Bandaríkjanna og Rússlands verði afnumið.

NATO-ríkin hefja í dag umfangsmestu heræfingar sínar frá því á tímum kalda stríðsins, um er að ræða sviðsetta árás á Noreg og munu allar 29 aðildarþjóðirnar taka þátt í æfingunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert