Líkurnar á sigri demókrata minnka

Skoðanakannanir í Bandaríkjunum benda núna til þess að líkurnar á því að demókratar fari með sigur af hólmi í þingkosningunum 6. nóvember séu ekki eins miklar og þær voru fyrir nokkrum mánuðum. Demókratar eru enn taldir líklegir til að bæta við sig þingsætum í fulltrúadeild þingsins en óvissa er um hvort þeim tekst að ná meirihluta í deildinni eins og þeir vonast til.

Repúblikanar eru með meirihluta í báðum deildum þingsins, auk þess sem þeir fengu forsetaembættið í kosningunum fyrir tveimur árum þegar Donald Trump náði kjöri þótt hann hefði aðeins fengið 46% atkvæðanna en forsetaefni demókrata 48%. Repúblikanar eru með traustan meirihluta í fulltrúadeildinni en naumari í öldungadeildinni þar sem þeir eru með 51 þingsæti af 100. Þetta gæti breyst í komandi þingkosningum, á miðju kjörtímabili forsetans, þegar kosið verður um öll 435 sæti fulltrúadeildarinnar og um þriðjung sætanna í öldungadeildinni, eða 35.

Stefnir í sigur repúblikana í öldungadeildinni

Þótt meirihluti repúblikana í öldungadeildinni sé naumari en í fulltrúadeildinni eru líkurnar á því að demókratar felli hann minni, meðal annars vegna þess að þeir þurfa að verja 25 af sætunum 35 og nokkur þeirra eru í ríkjum þar sem Trump fékk fleiri atkvæði en forsetaefni demókrata 2016.

„Demókratar virðast sífellt ólíklegri til að sigra í öldungadeildinni,“ hefur fréttaveitan AFP eftir David Lublin, prófessor í stjórnunardeild American University í Washington. Bandaríski vefurinn FiveThirtyEight, sem er þekktur fyrir tölfræðilegar rannsóknir á stjórnmálabaráttunni, telur líkurnar á því að demókratar fái meirihluta í öldungadeildinni aðeins vera 19%. Síðustu kannanir benda jafnvel til þess að repúblikanar auki meirihluta sinn í deildinni um tvö sæti.

Telur 85% líkur á sigri demókrata í fulltrúadeildinni

Til að fá meirihluta í fulltrúadeildinni þurfa demókratar að bæta við sig 23 sætum. FiveThirtyEight telur líkurnar á að þeim takist það vera um 85% eins og staðan er núna. Stjórnmálavefur Cook Political Report telur líklegt að demókratar bæti við sig 20 til 40 þingsætum og rekur það einkum til óvinsælda Trumps í mikilvægum kjördæmum og óvenjumikils áhuga meðal kjósenda demókrata á kosningunum. Munurinn á fylgi flokkanna er þó lítill í 30 kjördæmum og óvissan um niðurstöðu kosninganna því enn mikil.

Á vef RealClear Politics kemur fram að meðalfylgi demókrata í síðustu könnunum sé 48,8% og repúblikana 41,1%. Í slíkum könnunum eru þátttakendurnir spurðir hvort þeir séu líklegir til að kjósa demókrata eða repúblikana í kjördæmum sínum án þess að nöfn frambjóðendanna séu nefnd. Til að eiga möguleika á að fá meirihluta í fulltrúadeildinni er talið að demókratar þurfi að vera með verulegt forskot í slíkum könnunum, eða um það bil sjö prósentustig.

Lublin bendir á að þótt fylgi demókrata aukist í þingkosningunum, einkum í borgum þar sem Trump er óvinsæll, sé ekki víst að það skili sér í samsvarandi fjölgun þingsæta. „Demókratar eru mjög sterkir í borgunum og þéttbýlum svæðum en hjá repúblikönum er dreifing fylgisins jafnari,“ hefur AFP eftir Lublin. Hann bendir einnig á að baráttan um sæti í öldungadeildinni er tvísýnust í ríkjum þar sem atkvæði kjósenda í dreifbýli eru talin ráða úrslitum.

Stefnir í óvenjumikla kjörsókn

Kjörsóknin hefur yfirleitt verið lítil í kosningum á miðju kjörtímabili Bandaríkjaforseta en kannanir benda til þess að áhuginn á komandi kosningum sé óvenjumikill meðal félaga í báðum flokkunum. Í könnun sem The Wall Street Journal birti sögðust nær tveir af hverjum þremur skráðum kjósendum hafa mikinn áhuga á kosningunum. Um 72% demókrata og 68% repúblikana sögðust vera mjög áhugasöm um kosningarnar. Talið er að áhuginn meðal kjósenda repúblikana hafi aukist verulega vegna deilunnar um Brett Kavanaugh sem öldungadeildin skipaði í embætti hæstaréttardómara fyrr í mánuðinum eftir mikið þref.

Demókratar njóta meiri stuðnings en repúblikanar meðal óháðra kjósenda sem gætu ráðið úrslitum í baráttunni um fulltrúadeildina. Um 41% þeirra kvaðst styðja demókrata en 27% repúblikana í könnun The Wall Street Journal. Um þriðjungur þeirra hefur ekki gert upp hug sinn. Óháðir kjósendur eru ekki eins líklegir til að mæta á kjörstað í kosningum á miðju kjörtímabili forsetans og félagar í flokkunum tveimur. Aðeins 46% óháðra kjósenda sögðust hafa mikinn áhuga á kosningunum.

Könnunin bendir einnig til þess að stuðningurinn við demókrata sé 25 prósentustigum meiri en við repúblikana meðal kvenna. 57% kvenna sögðust vilja að demókratar fengju meirihluta á þinginu en aðeins 32% vildu frekar repúblikana. Um 52% karla sögðust vilja að repúblikanar fengju meirihluta en 38% vildu demókrata.

Munurinn er enn meiri þegar kjósendurnir eru flokkaðir eftir því hvort þeir búa í borgum eða dreifbýli. Demókratar eru með 36 prósentustiga forskot í borgunum en repúblikanar 31 stigs í dreifbýlum kjördæmum. Munurinn var hins vegar nánast enginn í útborgunum þar sem óvissan er mest. Um 45% kjósendanna þar sögðust vilja að demókratar fengju meirihluta en 44% vildu repúblikana.

Stuðningurinn við Donald Trump hefur einnig aukist í síðustu könnunum. Að meðaltali eru 51,8% óánægð með forsetann en 44,3% ánægð, að því er fram kemur á vef RealClear Politics.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert