Senda 800 hermenn að landamærunum

Talið eru að um 7 þúsund manns tilheyri hópnum, sem …
Talið eru að um 7 þúsund manns tilheyri hópnum, sem lagði upp­haf­lega af stað frá Hond­úras, en á leiðinni til Banda­ríkj­anna hafa fjöl­marg­ir bæst í hann. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti undirbýr að senda að minnsta kosti 800 hermenn að suðurlandamærum Bandaríkjanna að Mexíkó.

Hermennirnir eiga að koma í veg fyrir að hóp­ur hæl­is­leit­enda, sem er á leið að landa­mær­um Banda­ríkj­anna að Mexí­kó, kom­ist yfir þau. Talið er að um sjö þúsund manns tilheyri hópnum, sem lagði upp­haf­lega af stað frá Hond­úras, en á leiðinni til Banda­ríkj­anna hafa fjöl­marg­ir bæst í hann.

Trump hefur sagt að neyðarástand ríki í Bandaríkjunum vegna ágangs hælisleitenda sem reyni að komast yfir landamærin. „Ég mun senda herinn í þetta neyðarástand. Þau verða stöðvuð!“ sagði Trump í twitterfærslu á þriðjudag.

Hermennirnir munu bætast við hóp um 2.000 þjóðvarðliða sem sinna landamæraeftirliti á svæðinu. Talið er að James Mattis varnarmálaráðherra muni samþykkja herflutninginn síðar í dag.

Trump hefur gert ferð fólksins að landamærunum að útgangspunkti í kosningabaráttunni fyrir komandi þingkosningar í þarnæstu viku. Svo virðist sem forsetinn ætli að nota andúð stuðningsmanna sinna á innflytjendum til þess að tryggja stöðu repúblikana í báðum þingdeildum. Trump hefur meðal annars hótað því að loka landamærunum alfarið með hervaldi og að hætta fjárhagslegum stuðningi við Hondúras, El Salvador og Gvatemala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert