Staðráðnir í að komast til Bandaríkjanna

Hópur þúsunda hælisleitenda sem eru á leið að landamærum Bandaríkjanna í gegnum Mexíkó heldur nú áfram för sinni að næsta áfangastað. Hóp­ur­inn lagði upp­haf­lega af stað frá Hond­úras en á leiðinni til Banda­ríkj­anna hafa fjöl­marg­ir bæst í hann.

Hælisleitendurnir, sem hafa fengið yfir sig flaum twitterskilaboða frá Donald Trump Bandaríkjaforseta, bera flestir eigur sínar á bakinu. Margir eru ýmist með börn í fanginu eða sér við hönd og gekk fólk ýmist eða húkkaði sér far frá bænum Huixtla í suðurhluta Mexíkó til Mapastepec sem er í um 60 km fjarlægð.

„Ég sakna heimalands míns. Ég er ekki að gera þetta af því að mig langi. Það langar engan að fara að heiman til staðar sem þeir þekkja ekki. Stundum ýtir neyðin hins vegar manni til að gera slíkt vegna þess sem er að gerast í löndum okkar,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Delmer Martinez hælisleitanda frá El Salvador.

Hópurinn leggst til hvíldar í Mapastepec eftir 60 km göngu …
Hópurinn leggst til hvíldar í Mapastepec eftir 60 km göngu frá bænum Huixtla í suðurhluta Mexíkó. AFP

Njóta stuðnings íbúa Mexíkó

Flestir í hópinum, sem nú telur um 7.000 manns, eru að flýja ofbeldisglæpi, pólitískan óstöðugleika eða fátækt í heimalandinu. Flestir hælisleitendanna segjast staðráðnir í að komast til Bandaríkjanna, þrátt fyrir hótanir Trumps um hann muni stöðva för þeirra, skera á fjárhagsaðstoð við ríki Mið-Ameríku og beita hernum til að loka landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Mikill meirihluti hópsins er frá Hondúras.

AFP segir íbúa Mexíkó marga sýna hópinum stuðning er hann fer þar um. Fólkinu séu gefin matvæli og vatn og kallað til þeirra: „Haldið þessu áfram bræður!“

Til átaka kom milli hópsins og óeirðalögreglu á landamærum Gvatemala og Mexíkó er lögregla í Gvatemala reyndi að stöðva förina og gripu margir þá til þess ráðs að ýmist synda eða fara á flekum yfir ána sem skilur ríkin tvö að.

AFP segir mexíkósku ríkislögregluna fylgjast með för hópsins en ekki hafi verið gerð nein tilraun til að stöðva hann. Stjórnvöld í Mexíkó segja um 1.700 þeirra sem ferðast með hópnum hafa óskað eftir hæli í Mexíkó.

Hópurinn á enn eftir um 3.000 km leið ófarna að landamærum Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert