Sonur Khashoggis kominn til Bandaríkjanna

Salah Khashoggi tekur hér á móti samúðarkveðju krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed …
Salah Khashoggi tekur hér á móti samúðarkveðju krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman. AFP

Salah Khashoggi, elsti sonur sádiarabíska blaðamannsins Jamals Khashoggis, er nú kominn til Bandaríkjanna með fjölskyldu sinni, að því er BBC greinir frá.

Khashoggi hefur til þessa verið bannað að yfirgefa Sádi-Arabíu vegna gagnrýni föður hans í garð sádiarabískra stjórnvalda. Jamal Khashoggi var myrtur á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í Tyrklandi í byrjun þessa mánaðar.

Rík­is­sak­sókn­ari Sádi-Ar­ab­íu mun heim­sækja höfuðborg Tyrk­lands, Ist­an­búl, á sunnu­dag til að ræða við tyrk­nesk yf­ir­völd um rann­sókn­ina á morðinu á Khashoggi. Saksóknarinn sagði í gær Khashoggi hafa verið myrt­an að yf­ir­lögðu ráði, en í fyrstu neituðu Sádar að viður­kenna hvarf blaðamanns­ins. 

Búa yfir frekari upplýsingum um morðið

Recep Tayyip Er­dog­an Tyrk­lands­for­seti hvatti í dag ráðamenn í Sádi-Ar­ab­íu til að upp­lýsa um hvar lík Khashogg­is væri að finna. Tyrk­ir byggju enn yfir upp­lýs­ing­um um málið sem þeir hefðu ekki greint frá.

Sagði Er­dog­an sádi-ar­ab­ísk stjórn­völd einnig þurfa að gefa upp hver stjórnað hefði aðgerðunum er Khashoggi var myrt­ur á ræðismanns­skrif­stofu Sádi-Ar­ab­íu í Ist­an­búl í byrj­un mánaðar­ins.

Tyrkneskir rannsóknarmenn hafa sagt að Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu og stjórnandi landsins í raun, hljóti að hafa vitað af morðinu. Sádiarabísk stjórnvöld hafna því hins vegar alfarið að hann hafi átt þátt í dauða blaðamannsins.

Myndin með krónprinsinum gjaldið fyrir ferðaleyfið

Tveimur dögum áður en sonur Khashoggis kom til Bandaríkjanna var hann myndaður við að taka á móti samúðarkveðjum frá krónprinsinum og hafa þær raddir heyrst að myndatakan með prinsinum hafi verið gjaldið sem hann þurfti að greiða til að komast úr landi.

Talsmaður bandarískra stjórnvalda segir Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafa tilkynnt sádiarabískum ráðamönnum að hann vildi að Salah Khashoggi, sem er með tvöfaldan ríkisborgararétt, fengi að snúa aftur til Bandaríkjanna og það hafi gengið eftir.

Gina Haspel, forstjóri CIA, fundaði með tyrkneskum rannsakendum í vikunni og hefur nú upplýst Donald Trump Bandaríkjaforseta um málið. Ekki hefur verið greint frá því hvað þeim fór á milli, en Haspel er sögð hafa fengið að heyra upptökur af morðinu á Khashoggi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert