Hælisleitendum boðin aðstoð í Mexíkó

Talið er að um sjö þúsund manns til­heyri hópi hælisleitenda, …
Talið er að um sjö þúsund manns til­heyri hópi hælisleitenda, sem lagði upp­haf­lega af stað frá Hond­úras í átt til Bandaríkjanna í leit að betra lífi. AFP

Stjórnvöld í Mexíkó ætla að bjóða hælisleitendum frá Mið-Ameríku heilbrigðisþjónustu, menntun fyrir börn þeirra og tímabundin störf svo lengi sem þeir ákveða að setjast að í öðru tveggja fylkja í suðurhluta Mexíkó.

Boðið kemur í kjölfar þess ástands sem skapast hefur við suður­landa­mær­i Banda­ríkj­anna að Mexí­kó. Talið er að um sjö þúsund manns til­heyri hópi hælisleitenda, sem lagði upp­haf­lega af stað frá Hond­úras í átt til Bandaríkjanna í leit að betra lífi, en á leiðinni að landamærunum hafa fjöl­marg­ir bæst í hann.

Enrique Pena Nieto, forseti Mexíkó, bitir myndskeið á twittersíðu sinni undir yfirskriftinni: „Vertu eins og heima hjá þér,“ þar sem hælisleitendunum er boðið að setjast að tímabundið í fylkjunum Chiapas og Oaxaca. Hælisleitendur sem þiggja boðið verða að sækja um hjá viðeigandi stofnun.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hef­ur sagt að neyðarástand ríki í Banda­ríkj­un­um vegna ágangs hæl­is­leit­enda sem reyni að kom­ast yfir landa­mær­in. Fyrr í vikunni tilkynnti hann að um 800 her­menn yrðu sendir að suður­landa­mær­unum til að koma í veg fyrir að hælisleitendurnir kæmust yfir landamærin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert