Árásarmaðurinn ekki stuðningsmaður Trumps

Robert Bowers réðst inn í bænahús gyðinga í Pittsburgh í …
Robert Bowers réðst inn í bænahús gyðinga í Pittsburgh í Bandaríkjunum í gær. Ljósmynd/CNN

Robert Bowers, árásarmaðurinn sem drap 11 manns í Pittsburgh um helgina, hefur verið kærður fyrir 29 alríkisglæpi. „Ég vil bara drepa gyðinga,“ er haft eftir honum.

Hann tjáði sig töluvert á samfélagsmiðlinum Gab fyrir árásina. Þar kallaði hann gyðinga til dæmis „börn Satans“ og sýndi stoltur byssusafn sitt, „fjölskylduna“. Hann var ekki stuðningsmaður Trumps og þótti hann of mikill alþjóðasinni og ekki nógu þjóðernissinnaður.

Bowers er mikill áhugamaður um skotvopn og hafði leyfi til að ganga með vopn. Hann hefur keypt sex byssur frá því 1996, meðal þeirra er AR-15, hálfsjálfvirkur riffill sem hefur verið algengt vopn í ámóta árásum í Bandaríkjunum undanfarið.

Hann liggur á spítala og er að jafna sig en á vafalaust yfir höfði sér dauðadóm.

Nágrannar Bowers sögðu flestir athæfi hans hafa komið sér á óvart. Hann vann sem vörubílstjóri, hafði hægt um sig og var einrænn og þögull. Stundum hélt hann sig heima við dögum saman.

Hann hafði verið ötull við að skrifa inn á samfélagsmiðilinn Gab um byssur, gyðinga og Trump. Skrif hans þar, segir AFP, eru einkennandi fyrir öfgahægrisamsæriskenningasmiði og þá sem hafa ofurtrú á hvíta kynstofninum.

Hann sakaði gyðinga til dæmis um að koma með múslima inn í landið. „Ég get ekki setið hjá og horft á þá slátra mínu fólki. Ég ætla inn,“ sagði hann stuttu áður en hann réðst til atlögu.

Á myndskeiðinu hér að neðan má heyra upptökur úr talstöðvum lögreglu við handtökuna og myndir af vettvangi: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert