Hópur frá El Salvador eltir ameríska drauminn

Um 300 manna hópur hóf gönguna löngu í átt að …
Um 300 manna hópur hóf gönguna löngu í átt að landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna frá San Salvador, höfuðborg El Salvador. AFP

Um 300 hælisleitendur frá El Salvador lögðu af stað í dag, fótgangandi, áleiðis að landamærum Gvatemala. Þaðan vonast þeir til að komast í kynni við „ameríska drauminn“ með því að komast áleiðis að landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna.

Hópurinn samanstendur mestmegnis af karlmönnum sem sækja innblástur sinn til stærri hóps hælisleitenda sem lagði af stað frá Hond­úras í átt til Banda­ríkj­anna í leit að betra lífi. Talið er að um sjö þúsund manns tilheyri þeim hópi.

„Við erum rétt rúmlega 300 talsins, en eftir því sem líður á gönguna vonum við að samlandar okkar bætist í hópinn,“ segir Hernan Quinteros, 48 ára fyrrverandi liðþjálfi í hernum, í samtali við AFP-fréttastofuna.

Hópurinn lagði af stað þrátt fyrir varnaðarorð ríkisstjórnarinnar í El Salvador á föstudag sem segir að með göngunni sé hópurinn að leggja líf sitt í hættu.

Hópurinn samanstendur mest megnis af karlmönnum og því var mikið …
Hópurinn samanstendur mest megnis af karlmönnum og því var mikið um tilfinningaþrungnar kveðjustundir fjölskyldna áður en gangan hófst í dag. AFP

Sárt að skilja börnin eftir heima

Quinteros, sem tók þátt í borgarastyrjöldinni í El Salvador á 9. og 10. áratug síðustu aldar, segir að það hafi verið sársaukafullt að fara frá börnum sínum þremur en hann er sannfærður um að Bandaríkin séu land tækifæranna og því ákvað hann að leggja land undir fót.

Lögreglumenn fylgja hópnum og tryggja öryggi þeirra að landamærum Gvatemala.

Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti hef­ur sagt að neyðarástand ríki í Banda­ríkj­un­um vegna ágangs hæl­is­leit­enda sem reyni að kom­ast yfir landa­mær­in. Fyrr í vik­unni til­kynnti hann að um 800 her­menn yrðu send­ir að suður­landa­mær­unum til að koma í veg fyr­ir að hæl­is­leit­end­urn­ir kæm­ust yfir landa­mær­in.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert