Farþegaþota hrapaði skömmu eftir flugtak

Brak úr farþegaþotunni.
Brak úr farþegaþotunni. AFP

Farþegaþota indónesíska flugfélagsins Lion Air hrapaði í hafið í kringum miðnætti að íslenskum tíma skömmu eftir að hún hafði yfirgefið höfuðborgina Jakarta.

Fram kemur í frétt AFP að samband við farþegaþotuna, sem var af gerðinni Boeing-737 MAX og með 189 mann um borð, hafi rofnað um klukkan hálftólf, um 13 mínútum eftir að hún hafði yfirgefið flugvöllinn í borginni. Leit stendur enn yfir að flakinu. Skömmu áður en samband rofnaði óskaði flugstjórinn eftir því að fá að snúa aftur til Jakarta.

Farþegaþotan, sem var á leiðinni til borgarinnar Pangkal Pinang, var nýleg og hafði verið yfirfarin fyrir einungis mánuði. Flakið liggur á um 30-40 metra dýpi og sést brak á yfirborði hafsins. Flugmaðurinn og flugstjórinn höfðu samanlagt 11 þúsund flugtíma að baki.

Uppfært kl. 8:15: Framkvæmdastjóri Lion Air segir samkvæmt AFP að gert hafi verið við vélarbilun í farþegaþotunni eftir síðustu flugferð hennar áður en hún hrapaði.

Farþegaþota í eigu flugfélagsins Lion Air.
Farþegaþota í eigu flugfélagsins Lion Air. AFP
Staðurinn þar sem farþegaþotan hrapaði.
Staðurinn þar sem farþegaþotan hrapaði. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert