Tékkar áttu skýrslu um Trump

Donald Trump og Ivana, þáverandi eiginkona hans, á leið á …
Donald Trump og Ivana, þáverandi eiginkona hans, á leið á samkomu 1989. Leyniþjónusta Tékkóslóvakíu var með skýrslu um Trump-hjónin. AFP

Leyniþjónusta Tékkóslóvakíu tók saman skýrslu um Donald Trump Bandaríkjaforseta eftir að hann gekk í sitt fyrsta hjónaband, sem var með tékkneskri konu, Ivönu Zelnickova, að því er vikublað í Prag greinir frá í samstarfi við breska dagblaðið Guardian.

„Já, Trump-hjónin voru til skoðunar hjá okkur,“ hefur tékkneska blaðið Respekt eftir Vlastimil Danek, fyrrverandi yfirmanni hjá leyniþjónustu tékkóslóvakíska kommúnistaflokksins.

„Við vissum að Trump væri áhrifamaður. Hann duldi ekki áhuga sinn á að verða forsetinn einn daginn. Við höfðum áhuga á að vita meira um hann.“

Trump giftist Ivönu árið 1978, en hún er móðir þriggja barna hans, þeirra Donalds jr., Ivönku og Erics. Þau skildu árið 1992.

Í greininni er Trump sagður hafa byrjað að hugleiða forsetaframboð 1986. Hann er þó sagður hafa gefið þá hugmynd upp á bátinn, þar sem hann taldi sig of ungan í embættið er hann var 41 árs.

Í athugasemdum með skýrslunni segir um Trump: „ Með framboði sínu vill hann verða undantekningin í bandarískri sögu. Hann vill ná kjöri sem óháður forseti. Hann er hvorki félagi í Demókrataflokknum né Repúblikanaflokknum, þó að báðir flokkar reyni að fá hann til liðs við sig.“

Í athugasemdunum kemur einnig fram að: „Jafnvel þó að það virðist vera óskhyggja, þá er Donald Trump sannfærður um að þetta muni takast.“

Kommúnistastjórn Tékkóslóvakíu leið undir lok með flauelsbyltingunni árið 1989, en leynilögreglan hafði fyrir þann tíma átt í nánu samstarfi við sovésku leyniþjónustuna allt fram að hruni Sovétríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert