Þúsundir hermanna sendar að landamærunum

Hælisleitendur fara hér yfir Suchiate-ána frá Gvatemala til Ciudad Hidalgo …
Hælisleitendur fara hér yfir Suchiate-ána frá Gvatemala til Ciudad Hidalgo í Mexíkó eftir að öryggishlið á brú sem skilur löndin að var eflt. AFP

Þúsundir bandarískra hermanna kunna að vera sendar að landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó til að hindra hóp hælisleitenda sem er á leið í gegnum Mexíkó að komast yfir til Bandaríkjanna. Reuters-fréttastofan hefur þetta eftir heimildamanni sem segir fjöldann mun meiri en þá 800-1.000 hermenn sem hingað til hefur verið talað um.

Reuters segir bandaríska varnarmálaráðuneytið Pentagon neita að tjá sig um hversu fjölmennt herlið verði sent á vettvang. Ráðuneytið segir undirbúning aðgerða enn í gangi, en slíkar aðgerðir eru taldar geta haft áhrif á þingkosningar sem fram fara í Bandaríkjunum síðar í mánuðinum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur verið ötull að tjá sig um hælisleitendahópinn og hefur m.a. sagt á Twitter að herinn muni bíða þeirra við landamærin, en með yfirlýsingum sínum gefur forsetinn í skyn mun virkari þátttöku hersins í aðgerðunum en varnarmálaráðuneytið hefur til þessa viljað gefa til kynna.

„Fjöldi liðsmanna glæpagengja og sumt verulega vont fólk er meðal þeirra sem taka þátt í göngunni að landamærum okkar í suðri,“ sagði Trump á Twitter.

„Vinsamlegast snúið við. Ykkur verður ekki hleypt inn til Bandaríkjanna nema þið farið lagalegu leiðina. Þetta er innrás í land okkar og her okkar bíður eftir ykkur!“ bætti forsetinn við.

Hælisleitendur frá Hondúras eru hér á ferð í Oaxaca-fylki í …
Hælisleitendur frá Hondúras eru hér á ferð í Oaxaca-fylki í Mexíkó á leið sinni til Bandaríkjanna. AFP

Bandarískir ráðamenn sögðu Reuters í síðustu viku að herinn muni ekki taka virkan þátt í að koma í veg fyrir að fólkið komist til Bandaríkjanna, þess í stað verði sendir verkfræðingar, flugmenn og annað starfsfólk sem getur aðstoðað við að halda mannfjöldanum Bandaríkjamegin landamæranna í skefjum.

Jim Mattis varnarámálaráðherra heimilaði í síðustu viku notkun hergagna og að hersveitir verði sendar að landamærunum.

New York Times greindi frá því nú í kvöld að 5.200 hermenn verði sendir að landamærunum, en áður hafði Reuters eftir heimildamönnum að til standi að senda hersveitir á staðinn strax á morgun og að þær verði hafðar við landamærin fram undir miðjan desember. Vel komi þá til greina að framlengja viðveru hersveitanna reynist þess þörf.

2.000 þjóðvarðliðar eru þegar við gæslu á landamærunum og hafa verið þar frá því í apríl á þessu ári að beiðni forsetans.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert