10 farast í óveðri á Ítalíu

Fjölmargar snekkjur sem lágu við höfn í Rapallo, í nágrenni …
Fjölmargar snekkjur sem lágu við höfn í Rapallo, í nágrenni Genúa, eyðilögðust í veðrinu. AFP

Tíu manns hið minnsta fórust er óveður gekk yfir Ítalíu í gær. Vindhraði náði allt að 180 km/klst. og greint var frá því að tveir stormsveipir hefðu kostað einn mann lífið og valdið 10 öðrum meiðslum er þeir fóru yfir strandbæinn Terracina, þar sem þeir rifu þök af húsum af miklum krafti.

Sterk­ir vind­ar frá Afr­íku gengu yfir landið í gær og fylgdu þeim gríðarlega mikl­ar rign­ing­ar.

Skólum og ferðamannastöðum í nokkrum héruðum landsins hefur verið lokað vegna veðursins, en í Fen­eyj­um olli óveðrið flóðum og hefur AFP-frétta­veit­an eft­ir yf­ir­völd­um þar í borg að vatns­yf­ir­borðið á Markús­ar­torgi, ein­um vin­sæl­asta áfangastað ferðamanna á gjörv­allri Ítal­íu, hafi náð 156 senti­metra hæð er mest lét í gær. Um 75% borgarinnar eru nú undir vatni.

Íbúar hreinsa til á götu í nágrenni hafnarinnar í Rapallo, …
Íbúar hreinsa til á götu í nágrenni hafnarinnar í Rapallo, sem varð illa úti í veðrinu. AFP

Norðan við Feneyjar blasa víða við fallin tré og aurskriður af völdum veðursins og eins féllu tré í höfuðborginni Róm og í borginni Napólí, þar sem 21 árs námsmaður lést.

Einn maður lést í Veneto-héraði er hann varð undir tré og slökkviliðsmaður lést í Alto Adige-héraðinu, einnig þekkt sem Suður-Týrol. Þá lést kona er aurskriða féll á heimili hennar og lík fiskimanns fannst nokkrum tímum eftir að hann fór að athuga með bát sem hann var með á Trento-stöðuvatninu.

Bílar í Prati-hverfinu í Róm fengu að kenna á veðrinu, …
Bílar í Prati-hverfinu í Róm fengu að kenna á veðrinu, en tré féllu víða á Ítalíu. AFP

Einn maður, sem var við sjódrekaflug (e. kite-surfing) úti fyrir Rimini-ströndinni lést þá er vindurinn skellti honum utan í klettana.

BBC segir að í gær hafi verið tilkynnt um lát sex manns víða um Ítalíu af völdum veðursins og að tala látinna hafi haldið áfram að hækka í dag.

Veðuraðstæður voru hvað verstar við vesturströnd landsins, einkum í nágrenni Liguriu. Þannig eyðilagðist brimvarnargarður hafnarinnar í Rapallo í veðrinu og þurfti slökkvilið að koma 19 manns til bjargar sem lokast höfðu af í höfninni.

Maðurinn hreinsar brak af ströndinni í Monterosso í Ligúríu, en …
Maðurinn hreinsar brak af ströndinni í Monterosso í Ligúríu, en veður var óvíða verra en í Ligúríu. AFP

Ítalska veðurstofan hefur varað við að von sé á áframhaldandi óveðri og að búast megi við truflunum á rafmagni og samgöngum.

Ferðamenn á ferð í Feneyjum, en 75% borgarinnar eru nú …
Ferðamenn á ferð í Feneyjum, en 75% borgarinnar eru nú undir vatni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert