Allar Boeing 737-MAX sæti skoðun

Munir farþeganna sem tekist hefur að endurheimta úr sjónum á …
Munir farþeganna sem tekist hefur að endurheimta úr sjónum á slysstað. AFP

Samgönguráðherra Indónesíu hefur fyrirskipað flugfélögum í landinu að gera sérstaka úttekt á öllum Boeing 737-MAX-flugvélum sínum, en glæný vél Lion Air sem hrapaði í sjóinn skömmu eftir flugtak aðfaranótt mánudags var af þeirri gerð.

Flugmálayfirvöldum láðist að stöðva flugtak vélarinnar, en í leiðarbók flugvélarinnar frá deginum áður en slysið varð kom fram að hraðamælir við flugstjórasæti vélarinnar væri „óáreiðanlegur“ og að flugstjórinn hefði látið aðstoðarflugmanninn sjá um mælingarnar.

Hátt í 200 voru um borð í flugvélinni sem hrapaði skömmu eftir flugtak og eru farþegar og áhöfn öll talin af.

Yfirvöld í Indónesíu vinna nú að því að endurheimta líkamsleifar og lík farþeganna og flugvélarbrakið úr sjónum.

Flugvélin missti hæð og hvarf síðan af ratsjám tólf mínútum eftir flugtak frá höfuðborg Indónesíu, Jakarta. Skömmu áður hafði flugstjórinn óskað eftir því að fá að snúa aftur til Jakarta, en flugvélin var á leið til indónesísku borgarinnar Pangkal Pinang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert