Trump: Börn hælisleitenda fái ekki ríkisborgararétt

Donald Trump Bandaríkjaforseti vill meina að forsetatilskipun dugi til að …
Donald Trump Bandaríkjaforseti vill meina að forsetatilskipun dugi til að afnema rétt barna ólöglegra innflytjenda, sem fæðast í Bandaríkjunum, til að verða sjálfkrafa bandarískir ríkisborgarar. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilkynnt að hann ætli að takmarka réttindi ákveðinna barna sem fæðast í Bandaríkjunum, til að öðlast bandarískan ríkisborgararétt. Reuters-fréttastofan segir Trump með þessu leitast við að auka stuðning við Repúblikanaflokkinn í aðdraganda þingkosninga sem fram fara í Bandaríkjunum í næstu viku.

Trump greindi Axios vefmiðlinum frá þessum fyrirætlunum sínum sem miðast við að koma í veg fyrir að börn ólöglegra innflytjenda og þeirra sem ekki eru með bandarískan ríkisborgara rétt fái sjálfkrafa ríkisborgararétt í landinu við fæðingu.

Segir Reuters að verulegar breytingar yrðu á innflytjendastefnu landsins með slíku og að búast megi við hörðum deilum um málið í þinginu, en samkvæmt 14. grein stjórnarskrárinnar öðlast þeir sem fæðast í landinu sjálfkrafa bandarískan ríkisborgararétt.

Kvaðst forsetinn ætla að breyta lögunum með forsetatilskipun, en að sögn Reuters þarf bæði Bandaríkjaþing og ríki Bandaríkjanna að eiga aðild að slíkri breytingu á stjórnarskránni.

Repúblikanar hafa reglulega frá árinu 2005 lagt fram frumvörp þar sem reynt er að koma í veg fyrir að börn ólöglegra innflytjenda geti sjálfkrafa öðlast ríkisborgararétt.

Er öldungadeildarþingmaðurinn og repúblikaninn Lindsey Graham sögð ætla að leggja fram frumvarp sem er á sömu línu og forsetatilskipun Trumps.

Hvorki Graham né Trump hafa viljað greina nánar frá fyrirætlunum sínum, en varaforsetinn Mike Pence sagði í viðtali við fréttavefinn Politico að slík áætlun brjóti ekki endilega í bága við stjórnarskránna, m.a. af því að hæstiréttur hafi ekki úrskurðað um málið. „Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur aldrei úrskurðað hvort að orðafar 14. greinarinnar taki einnig til þeirra sem eru ólöglega í landinu,“ sagði Pence.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert