Hyggst reisa tjaldbúðir „út um allt“

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá því í gær að ríkisstjórn hans væri að skipuleggja tjaldbúðir til þess að hýsa þúsundir Mið-Ameríkubúa sem eru á leið í gegnum Mexíkó til landamæra landsins að Bandaríkjunum.

Forsetinn greindi frá þessu í viðtali við fréttatíma sjónvarpsstöðvarinnar Fox um það leyti sem varnamálaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti að 5.200 hermenn yrðu sendir að landamærunum til þess að gæta öryggis við þau.

„Ef þeir sækja um hæli þá ætlum við að halda þeim þar til hægt er að taka fyrir mál þeirra fyrir dómstólum. Við ætlum að halda þeim, við ætlum að reisa tjaldbúðir, við ætlum að reisa tjöld út um allt,“ sagði Trump í viðtalinu.

„Við ætlum að reisa byggingar og eyða öllum þessum hundruðum milljóna dollara. Við ætlum að reisa tjöld, þau munu hegða sér vel, og þau munu þurfa að bíða, og ef þau fá ekki hæli verður þeim vísað burt,“ sagði hann enn fremur.

AFP

Trump sagði að það yrði til þess að draga úr hælisleitendum að koma til Bandaríkjanna að þeir yrðu í haldi á meðan farið yrði yfir umsóknir þeirra. „Ef þið viljið bíða, þá fær fólk venjulega ekki hæli. Þið vitið það,“ sagði forsetinn í viðtalinu.

„Vandamálið er að þeim er sleppt og síðan eiga þeir að koma fyrir dómstól, þremur árum seinna, en enginn mætir,“ sagði Trump enn fremur. Ólíkt því sem forveri hans, Barack Obama, hefði gert yrði hælisleitendur hafðir í haldi.

„Þegar fólk kemst að því hvað gerist mun miklu færra fólk koma,“ sagði forsetinn. Fram kemur í frétt AFP að Trump hafi staðið fyrir miklum fundahöldum að undanförnu með kjósendum með áherslu á innflytjendamálin.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert