Máli Assange vísað frá

Julian Assange á svölum sendiráðs Ekvadors í London í maí …
Julian Assange á svölum sendiráðs Ekvadors í London í maí í fyrra. AFP

Dómstóll í Ekvador hefur vísað frá máli Julian Assange, stofnanda Wikileaks, sem hélt því fram að brotið hafi verið á „grundvallarréttindum“ hans og að aðgangur hans að umheiminum hafi verið takmarkaður á meðan hann hefur notið verndar sendiráðsins í London.

Carlos Poveda, lögmaður Assange í Ekvador, hefur áfrýjað dóminum. Það þýðir að Hæstiréttur landsins mun væntanlega taka málið fyrir á næstu dögum.

Fyrr í þessum mánuði voru nýjar húsreglur lagðar fyrir Assange af sendiráðinu. Á meðal þeirra er að hann borgi fyrir netnotkun sína og passi betur upp á köttinn sinn. Hann var einnig beðinn um að halda baðherberginu sínu hreinu, borga fyrir sinn eigin mat og fyrir að þvo fötin sín.

Assange, sem er 47 ára, höfðaði málið á sama tíma og vangaveltur hafa verið uppi um að stjórnvöld í Ekvador ætli að binda enda á pattstöðuna sem er uppi í máli hans gagnvart breskum stjórnvöldum.

Sjö mánuðir eru síðan Ekvador hótaði að af­nema póli­tískt hæli Assange og hóf að tak­marka aðgengi hans að um­heim­in­um, meðal ann­ars með því að neita frétta- og mann­rétt­inda­fólki um að hitta hann. Þá lokaði sendi­ráðið fyr­ir netteng­ingu Assange í vor en eftir það fékk hann takmarkaðan aðgang að netinu.

Carlos Poveda, lögmaður Julian Assange.
Carlos Poveda, lögmaður Julian Assange. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert