Reynt að koma höggi á Mueller?

Saksóknarinn Robert Mueller.
Saksóknarinn Robert Mueller. AFP

Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur til skoðunar meintar tilraunir til þess að greiða konum háar fjárhæðir fyrir að saka saksóknarann Robert Mueller um kynferðislega áreitni í þeim tilgangi að grafa undan trúverðugleika hans. Mueller hefur verið að rannsaka meint tengsl náinna samstarfsmanna Donalds Trump Bandaríkjaforseta við rússnesk stjórnvöld. Forsetinn hefur ítrekað þvertekið fyrir slík tengsl og sagt að rannsókn Muellers sé nornaveiðar.

Fram kemur í frétt AFP að höfuðstöðvar FBI hafi greint frá þessu í gær. Rannsókn málsins hófst eftir að kona, sem segist hafa starfað fyrir Mueller fyrir nokkrum áratugum, greindi blaðamönnum frá því að henni hefðu verið boðnir 20 þúsund dollarar fyrir að saka hann um kynferðisofbeldi. Haft er eftir talsmanni Muellers, Peter Carr, að þegar upplýsingar hafi borist um málið í síðustu viku hafi það strax verið tilkynnt til alríkislögreglunnar.

Carr veitti ekki frekari upplýsingar en fram kemur í fréttinni að yfirlýsing hans sé til marks um að skrifstofa Muellers taki málið mjög alvarlega. Yfirlýsing Carr kom sama dag og Jack Burkman, sem heldur úti hlaðvarpi sem þekkt er fyrir að halda á lofti samsæriskenningum, tilkynnti að til stæði að greina frá fyrsta fórnarlambi kynferðisofbeldis af hálfu Muellers á fimmtudaginn. Burkman hafnaði því að hafa boðið greiðslur fyrir upplýsingarnar.

Óþekkt kona sem ekki hefur látið ná í sig

„Vinstrimenn eru að reyna að verja Mueller gegn ásökunum um kynferðisofbeldi og ráðast því á mig í örvætningu sinni,“ skrifaði Burkman á Twitter-síðu sína. „Fjölmiðlar kerfisins vita að þetta gæti orðið Mueller að falli og því vilja þeir dreifa athyglinni.“ Vefsíðan The Hill segir konu hafa haft samband við starfsmenn hennar og fleiri fjölmiðla og greint frá því að sér hefðu verið boðnir 20 þúsund dollarar fyrir að saka Mueller um kynferðisofbeldi.

Konan er sögð hafa greint frá þessu í tölvupósti sem hún hafi sent 18. október en þar komi ekki fram nafn hennar. Hún hafi sagt að karlmaður, sem hafi sagst vinna fyrir Burkman, hafi óskað eftir því að hún sakaði Mueller um kynferðislega áreitni á vinnustað og undirritaði yfirlýsingu þess efnis. Síðan hafi hins vegar ekki verið hægt að ná í konuna.

Fram kemur í frétt AFP að hlaðvarp Burkmans sé sýnt á sjónvarpsstöðinni NewsmaxTV sem er hluti af fjölmiðlafyrirtækinu Newsmax Media, en yfirmaður þess, Chris Ruddy, sé náinn trúnaðarvinur Trumps. Burkman lýsti því fyrst yfir 20. október að hann hefði upplýsingar um slæma framkonu Muellers, þar á meðal vegna drykkju og kynferðisofbeldis, tveimur dögum eftir að hin óþekkta kona hefði haft samband við fjölmiðla.

Donald Trump Bandaríkjaforseti..
Donald Trump Bandaríkjaforseti.. AFP
mbl.is