Telja flak farþegaþotunnar fundið

Réttarmeinafræðingar taka við líkpoka sem inniheldur líkamsleifar sem fundist hafa.
Réttarmeinafræðingar taka við líkpoka sem inniheldur líkamsleifar sem fundist hafa. AFP

Stjórnvöld í Indónesíu telja að tekist hafi að staðsetja flak farþegaþotu lággjaldaflugfélagsins Lion Air sem hrapaði í hafið úti fyrir strönd indónesísku eyjarinnar Jövu aðfaranótt mánudagsins. Þetta kemur fram í frétt AFP um málið.

Haft er eftir yfirmanni indónesíska hersins, Hadi Tjahjanto, að yfirvöld væru fullviss um að tekist hafi að finna skrokk farþegaþotunnar, sem var af gerðinni Boeing 737-MAX, með ratsjám. Talið er að allir um borð hafi farist, 189 manns.

Tjahjanto setti engu að síður þann fyrirvara að ekki hefði verið staðfest að um skrokk farþegaþotunnnar væri að ræða. Leit hefur staðið yfir að þotunni frá því að hún fórst en talið er að flak hennar sé að finna á um 30-40 metra dýpi.

Tugir kafara hafa tekið þátt í leitinni ásamt þyrlum og skipum en yfirvöld hafa nær gefið upp alla von um að einhver finnist á lífi. Farþegaþotan var á leið frá höfuðborg Indónesíu, Jakarta, til indónesísku borgarinnar Pangkal Pinang.

Brak sem talið er vera úr farþegaþotunni.
Brak sem talið er vera úr farþegaþotunni. AFP

Einungis 13 mínútum eftir flugtak slitnaði samband við farþegaþotuna en skömmu áður hafði flugstjórinn óskað eftir því að snúa aftur til Jakarta. Sérfræðingar segja að enn sé of snemmt að segja til um það hvað kunni að hafa valdið slysinu.

Hins vegar hafa vangaveltur vaknað um ástand farþegaþotunnar í ljósi þess að bilun kom upp í henni áður en hún hélt í hina örlagaríku ferð. Bilunin var löguð en ekki er talið ljóst hvort viðgerðin hafi verið að öllu leyti fullnægjandi. 

Mikilvægt þykir einnig að fá úr því skorið sem fyrst hvort hugsanlega hafi verið um að ræða galla í umræddri flugvélatengund í ljósi þess að ýmis önnur flugfélög nota hana einnig. Hafa indónesísk yfirvöld þegar kallað eftir úttekt í þeim efnum.

Persónulegir munir sem fundist hafa á slysstaðnum.
Persónulegir munir sem fundist hafa á slysstaðnum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert