Eru upp á náð karla komnar

Norður-kóreskar konur á fimleikasýningu. Norður-kóreskar konur sæta reglulega kynferðislegri áreitni ...
Norður-kóreskar konur á fimleikasýningu. Norður-kóreskar konur sæta reglulega kynferðislegri áreitni af hálfu opinberra embættismanna, sem hljóta enga refsingu fyrir. Mynd úr safni. AFP

Norður-kóreskar konur sæta reglulega kynferðislegri áreitni af hálfu opinberra embættismanna, sem hljóta enga refsingu fyrir. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu mannréttindasamtakanna Human Rights Watch (HRW), sem BBC greinir frá.

Segja samtökin slíka misnotkun svo algenga að hún teljist hluti hins daglega lífs.

Skýrsla HRW byggir á viðtölum við 62 Norður-Kóreubúa sem flúið hafa land. Greindu þeir í frásögnum sínum frá bæði nauðgunum og kynferðislegri misnotkun sem gefa til kynna að slíkt áreiti sé látið óátalið, ekki hvað síst áreiti af höndum karla í valdastöðu.

„Þeir líta á okkur sem [kynlífs] leikföng. Við erum upp á náð karla komnar,“ segir Oh Jung-hee, fyrrverandi kaupmaður. „Stundum fór maður að gráta á kvöldin út af engu og vissi ekki hvers vegna.“

Mannréttindasamtökin segja erfitt að afla upplýsinga um ástand mála í Norður-Kóreu og því séu skýrslur á borð við þessa sjaldgæfar. HRW segir sumar kvennanna hafa sagt kynferðislega misnotkun svo algenga að þær hafi ekki einu sinni talið hana „óvenjulega“. Kváðust sumar raunar hafa sætt sig við hana sem hluta daglegs lífs.

Lögreglumenn á götu í Pyongyang. Meðal gerenda kynferðisofbeldis eru hátt ...
Lögreglumenn á götu í Pyongyang. Meðal gerenda kynferðisofbeldis eru hátt settir embættismenn í Kommúnistaflokkinum, fangaverðir, lögreglumenn og hermenn. Mynd úr safni. AFP

Skortur á kynfræðslu og óheft misnotkun gerendanna á valdi sínu eru meðal þeirra þátta sem leiða til þessa hugarfars, að því er fram kemur í skýrslunni. Meðal gerendanna eru hátt settir embættismenn í Kommúnistaflokkinum, fangaverðir, lögreglumenn og hermenn.

Viðmælendur HRW sögðu  að þegar embættismaður „veldi“ konu þá ætti hún í raun ekki kost á öðru en að hlýða. Þetta var reynsla Park Young-hee, af lögreglumanni sem yfirheyrði hana er hún var gripin við að reyna að flýja land. „Hann lét mig setjast mjög nærri sér ...[og] snerti mig á milli fótanna ... nokkrum sinnum næstu daga,“ sagði hún. „Líf mitt var í hans höndum, þannig að ég gerði allt sem hann vildi. Hvernig gat ég gert eitthvað annað?“

Human Rights Watch hvetur ráðamenn í Norður-Kóreu til að „viðurkenna vandan sem fylgi kynferðisofbeldi“ og að tryggja að slíkt ofbeldi sé „meðhöndlað eins og glæpur“.

Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá 2014 kemur fram að „kerfisbundin, víðfeðm og ruddaleg mannréttindabrot“ séu framin af norður-kóreskum stjórnvöldum. Dæmi séu um þvingaðar fóstureyðingar, nauðganir og kynferðisofbeldi í fangelsum og varðhaldsmiðstöðvum í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Vetrardekk
Til sölu 4stk hálfslitin vetrardekk 205/55 R16.. Verð kr 12000... Sími 8986048....
Kaupi notaðar hljómplötur. Sími 696 1909.
Kaupi notaðar hljómplötur. Sími 696 1909....
Nissa Leaf til sölu..
Til sölu Nissan Leaf Tekkna árg. 2016. 30 kw, dökkblár, leiðurklæddur, myndavél...