Hafa fundið annan flugritann

Brak úr farþegaþotu Lion Air.
Brak úr farþegaþotu Lion Air. AFP

Tekist hefur að ná öðrum flugritanum úr flaki farþegaþotu indónesíska lággjaldaflugfélagsins Lion Air sem vonast er til að varpi ljósi á það hvers vegna hún hrapaði í hafið úti fyrir ströndum eyjarinnar Jövu í Indónesíu skömmu eftir flugtak í byrjun vikunnar.

Flugritarnir innihalda upplýsingar um hraða, flughæð og stefnu farþegaþotunnar sem og samskipti áhafnarinnar og gæti innihaldið mikilvægar vísbendingar um orsök slyssins. Þar á meðal hvort bilun hafi orðið. Ekki er hins vegar ljóst hvor flugritinn er fundinn, sá sem hefur að geyma upplýsingar um flugvélina eða um samskiptin samkvæmt frétt AFP.

Farþegaþotan, sem var af gerðinni Boeing-737 MAX, var tekin fyrst í notkun í ágúst. Einungis 13 mínútum eftir flugtak rofnaði samband við hana. Flugstjórinn hafði skömmu áður óskað eftir að fá að snúa aftur til flugvallarins í Jakarta, höfuðborg Indónesíu, þaðan sem þotan hafði lagt af stað á leið til borgarinnar Pangkal Pinang með 189 manns um borð.

Talið er að allir sem um borð voru hafi farist. Líkamsleifar hafa fundist þar sem farþegaþotan fórst sem og persónulegir munir fólks sem var um borð í henni. Flugritinn fannst í gær út frá merki sem hann gefur frá sér við þessar aðstæður til að auðveldara sé að finna hann en vegna slæms sjólags á slysstaðnum var ekki hægt að nálgast hann strax.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert