Sakaður um brot gegn 16 ára

Harvey Weinstein ásamt lögmanni sínum Benjamin Brafman.
Harvey Weinstein ásamt lögmanni sínum Benjamin Brafman. AFP

Bandaríski kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein hefur verið sakaður um að brjóta kynferðislega gegn stúlku undir lögaldri. Þetta kemur fram í dómsmáli gegn honum sem lagt var fram í New York-borg í Bandaríkjunum í dag.

Fram kemur í frétt AFP að stúlkan hafi verið 16 ára gömul þegar meint brot áttu sér stað. Weinstein hefur hafnað ásökununum að sögn lögmanns hans, Bens Brafman, sem segir þær fáránlegar. Tugir kvenna hafa stigið fram og sakað Weinstein um kynferðisofbeldi.

Ekki hefur verið gefið upp nafn stúlkunnar en fram hefur komið að hún sé frá Póllandi og hafi kynnst Weinstein þegar hún hafi sinnt fyrirsætustörfum í New York árið 2002. Weinstein hafi gefið henni nafnspjald sitt og boðið henni í mat.

Bílstjóri Weinsteins hafi sótt stúlkuna en í stað þess að aka þeim tveimur á veitingahús hafi hann ekið að íbúð hans í Soho-hverfinu. Hann hafi í kjölfarið krafist þess í íbúðinni með hótunum að þau stunduðu kynlíf saman.

Fram kemur að Weinstein hafi neytt stúlkuna, sem nú er fullorðin, til að snerta kynfærin á honum á meðan hann hafi sagt henni að hann hefði vald til þess að hafa áhrif á feril hennar. Weinstein hafi haldið áfram að áreita hana allt til ársins 2011.

Brafman segir ásakanirnar út í hött. „Eins og í tilfelli svo margra kvenna sem hafa þegar verið afhjúpaðar sem lygarar þá verður einnig sýnt fram á að þessi síðasta algerlega ósannaða ásökun, sem er næstum 20 ára gömul, sé röng.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert