Finna færri líkamsleifar en áður

AFP

Farþegasæti, hjólabúnaður og aðrir hlutar af farþegaþotu lággjaldaflugfélagsins Lion Air, sem brotlenti í hafinu út af eyjunni Jövu í Indónesíu í byrjun vikunnar, voru í morgun hífðir upp af hafsbotni þar sem illa farið flak þotunnar liggur.

Fram kemur í frétt AFP að rannsókn standi yfir á öðrum flugrita farþegaþotunnar til þess að reyna að varpa ljósi á það hvers vegna hún hrapaði í hafið með 189 manns innanborðs. Talið er ljóst að enginn hafi komist lífs af úr slysinu.

Farþegaþotan lagði af stað frá Jakarta, höfuðborg Indónesíu, skömmu fyrir miðnætti á sunnudagskvöldið á leið sinni til indónesísku borgarinnar Pangkal Pinang en einungis 13 mínútum eftir flugtak rofnaði sambandið við hana.

Flugstjórinn hafði skömmu fyrir flugtak óskað eftir heimild til þess að snúa aftur til Jakarta. Véarbilun hafði komið upp í farþegaþotunni, sem var tekin í notkun í ágúst, skömmu fyrir flugferðina örlagaríku en gert hafði verið við hana.

Hins vegar hafa komið upp efasemdir um að viðgerðin hafi verið fullnægjandi. Einnig hafa verið uppi vangaveltur um að hugsanlega hafi verið um framleiðslugalla að ræða í ljósi þess hversu ný þotan var. Þetta er hins vegar óstaðfest.

Kafarar hafa unnið að því að rannsaka búk farþegaþotunnar, sem var af gerðinni Boeing-737 MAX, þar sem hún liggur á hafsbotninum. Þotan er mjög illa farin og brak úr henni víða um hafsbotninn að sögn kafara sem ræddu við AFP.

Færri líkamsleifar hafa fundist núna en fyrr í vikunni segir í fréttinni. Þær eru á stóru svæði og talið er líklegt að mikið af líkamsleifum hafi borist burt með hafstraumum. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert