„Minniháttar“ gallar í 2 öðrum vélum

Samgönguráðuneyti Indónesíu sagðist í dag hafa fundið „minniháttar“ galla í tveimur öðrum flugvélum af tegundinni Boeing 737-MAX 8, þar á meðal í mæli í flugstjórnarklefanum, sem rannsakendur telja að sé svipaður þeim sem fannst í vél Lion Air sem hrapaði til jarðar á mánudag.

Ráðuneytið er að rannsaka tíu af nýjustu flugvélunum í eigu flugfélaganna Lion Air og Garuda. Á sama tíma stendur yfir rannsókn á upplýsingum úr flugrita vélarinnar sem hrapaði út af strönd indónesísku eyjarinnar Java með 189 manns um borð sem allir fórust.

Starfsmaður heldur á braki úr flugvélinni.
Starfsmaður heldur á braki úr flugvélinni. AFP

Litlar upplýsingar hafa borist frá rannsókninni en ráðuneytið sagðist hafa lokið rannsókn á sex flugvélum og uppgötvað að í einni voru vandamál sem tengjast mæli í flugstjórnarklefanum. Í annarri var jafnvægiskerfi vélarinnar í ólagi. Nýja íhluti þurfti í báðar flugvélarnar, sem eru í eigu Lion Air.

Kafarar skoða dekk sem voru undir flugvél Lion Air sem …
Kafarar skoða dekk sem voru undir flugvél Lion Air sem hrapaði til jarðar. AFP

Dudi Sudibyo, rannsakandi flugvéla, sagði við AFP að það gæti hafa fundist bilun í hraða- og hæðarmæli vélarinnar sem var rannsökuð, svipuð þeirri sem fannst í mæli vélarinnar sem hrapaði. „Þegar um flugvélar er að ræða, jafnvel þótt að gallinn sé pínulítill, þá á hún ekki að fara í loftið,“ sagði hann.

Stephen Wright, flugsérfræðingur hjá háskólanum í Leeds, sagði að gallarnir sem fundust séu „afar smávægilegir.“

Fyrr í dag fundust sæti, hjól og aðrir partar úr flugvélinni, í sjónum en kafarar og aðrir hópar hafa rannsakað brakið í allan dag. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi fundust skór fórnarlambanna einnig í sjónum. 

Flugriti vélarinnar skoðaður.
Flugriti vélarinnar skoðaður. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert