Hjálpargögn berast til 50.000 strandaglópa

Frá Rukban-flóttamannabúðunum sem liggja við landamæri Sýrlands að Jórdaníu. Þar …
Frá Rukban-flóttamannabúðunum sem liggja við landamæri Sýrlands að Jórdaníu. Þar eru um 50.000 manns strandaglópar. Um 80% þeirra eru konur og börn. AFP

Hjálparstarfsmenn á vegum Sameinuðu þjóðanna hafa komið hjálpargögnum til um 50.000 óbreyttra borgara sem hafa verið strandaglópar við landamæri Sýrlands að Jórdaníu. Þetta er í fyrsta sinn frá því í janúar sem hjálpargögn berast til fólksins sem er að flýja stríðsátökin í landinu.

Hjálpargögnin áttu að berast í Rukban-flóttamannabúðirnar 27. október en aðgerðinni var frestað af öryggisástæðum, að því er fram kemur á vef BBC.

Sýrlenski stjórnarherinn stýrir aðgengi að flóttamannabúðunum, sem eru staðsettar skammt frá bækistöð uppreisnarhóps sem nýtur stuðnings Bandaríkjanna. Stjórnvöld í Jórdaníu hafa einnig komið í veg fyrir að hjálpargögn hafi borist inn á svæðið. 

Fréttir hafa borist af börnum sem hafa látist af völdum skorts á hreinlæti auk þess sem skortur er á heilbrigðisþjónustu í flóttamannabúðunum sem samanstanda af um 10.800 bráðabirgðatjöldum og moldarkofum. Staðurinn þykir vera einn af þeim þar sem einna mest vonleysi ríkir í Sýrlandi. 

Myndirnar voru teknar fyrr á þessu ári, en hjálpargögnin sem …
Myndirnar voru teknar fyrr á þessu ári, en hjálpargögnin sem berast eru þau fyrstu frá því í janúar á þessu ári. AFP

Sameinuðu þjóðirnar telja að um 80% fólksins í búðunum séu konur og börn. Þá segja hjálparsamtök að óléttar konur hafi eignast börn án grunnheilbrigðisþjónustu. 

Hjálparstarfsmennirnir komu til Rukban í dag, en um samstarfsverkefni SÞ og Rauða hálfmánans í Sýrlandi er að ræða. 

Alls komu um 78 flutningabílar sem voru með rúmlega 10.000 matarpakka, fatnað fyrir 18.000 börn og yfir 10.000 pakkningar af hreinlætisvörum, plastlök og útbúnað fyrir ungbörn. Talið er að það muni taka þrjá til fjóra daga að koma gögnunum til fólksins. 

Þá er unnið að því að bólusetja um 10.000 börn gegn sjúkdómum á borð við mislingum og mænusótt. 

SÞ segja að ástandið í búðunum sé mjög alvarlegt því mikill skortur sé á ýmiss konar nauðsynjum. 

mbl.is